Veiði

Nýjar laxveiðitölur - Ytri-Rangá yfir 600 laxa

Trausti Hafliðason skrifar
Við Ægissíðufoss í Ytri-Rangá.
Við Ægissíðufoss í Ytri-Rangá. Mynd / Garðar
Alls hafði 601 lax komið á land í Ytri Rangá og á vesturbakka Hólsár í gær. Fjórar ár í viðbót hafa rofið 500 laxa múrinn. Þetta kemur fram í á vef Landssambands veiðifélaga en nýjar tölur um laxveiði í 75 ám birtust þar í gær.

Nú er veitt á 20 stangir í Ytri-Rangá og vesturbakka Hólsár og í síðustu viku, eða frá 11. til 18. júlí, komu 249 laxar á land.

Næstflestir laxar hafa komið á land í Norðurá eða 592 (14 stangir). Töluvert hefur hægt á veiði í ánni. Í síðustu viku veiddust 65 laxar samaborið við 175 laxa vikuna á undan. Miklar þurrkar hafa farið illa með veiðimenn í Norðurá eins og í fleiri ám víða um land. Það er nánast hægt að líkja þessari þurrkatíð við náttúruhamfarir.

Er vatn í ánni?


"Nú spyrja menn ekki lengur hvort það sé lax í ánni heldur hvort það sé yfirleitt vatn í ánni," sagði Óðinn Sigþórsson, formaður Landssambands veiðifélaga í Fréttablaðinu í fyrradag. Hann segir þurrkana hafa haft tvenns konar áhrif á laxveiðimenn. Bæði sé sólskin hið versta veðurfar til laxveiða og svo sé laxinn hættur að taka enda þrekaður í svo súrefnislitlu vatni.

Í Eystri-Rangá, þar sem nú er veitt á 18 stangir, veiddust 206 laxar í síðustu viku og er heildarveiðin komin í 573 laxa. Ótrúlega góð veiði hefur verið í Elliðánum og þrátt fyrir langvarandi þurrka hefur vatnsbúskapurinn þar verið með miklum ágætum. Síðasta vika gaf 185 laxa sem er meira en vikuna á undan en þá veiddist 141 lax. Í Elliðaánum er heildarveiðin komin í 564 laxa en veitt er á 6 stangir í ánni.

Í Haffjarðará hafa veiðst 543 laxar og veiddust 113 af þeim í síðustu viku. Veitt er á sex stangir í ánni. Vert er að geta þess að áin hefur nokkra sérstöðu því ekki hefur verið stunduð nein fiskrækt í ánni og er því eingöngu treyst á náttúrulegt klak til viðhalds stofns og veiði.

Þrjár ár hafa rofið 400 laxa múrinn. Það eru Blanda, Selá í Vopnafirði og Langá. Í Blöndu, þar sem veitt er á 16 stangir, hafa 490 laxar komið á land, þar af 125 í síðustu viku. Veiði í Selá hefur verið mjög góð það sem af er sumri. Þar er nú veitt á 7 stangir hafa 474 laxar komið á land, þar af 183 vikuna 11. til 18. júlí. Veiði í Langá hefur verið mjög stöðug það sem af er sumri og tiltölulega litlar sveiflur milli vikna. Heildarveiðin er nú komin í 406 laxa.

Sem fyrr er ekkert lát á góðri veiði í Brennunni í Hvítá í Borgarfirði. Þar er einungis veitt á tvær stangir og er heildarveiðin komin í 235 laxa, þar af veiddust 47 í síðustu viku sem er meira en vikuna á undan þegar 39 laxar komu á land.

Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru og geta áhugasamir rýnt sjálfir í tölurnar á vef Landssabands veiðifélaga - angling.is.

trausti@frettabladid.is






×