Veiði

Hiti og vatnsleysi háir Borgarfjarðaránum

Þegar veiðin hófst í Norðurá 5. júní var allt í besta formi en síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar.
Þegar veiðin hófst í Norðurá 5. júní var allt í besta formi en síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Mynd / Trausti.
Miklir þurrkar, hiti og sól er farin að setja mark sitt á laxveiðina í Borgarfirði ef marka má frétt á vef Stangaveiðifélags Reykjavíkur. Staðan er betri í Dölunum.

Á svfr.is kom fram í gær að vatnshiti Norðurá náði í fyrradag nærri 18 gráðum.

"Þó svo að Norðurá sé efst íslenskra laxveiðiá hvað fjölda veiddra laxa áhrærir þá er ástandið þar ekkert sérlega gott í augnablikinu. Síðasta holl var aðeins með milli 40-50 laxa sem þykir ákaflega dapurt, jafnvel í lélegum árum. Ástæðan er fyrst og fremst veðurfarsleg en gríðarlegir þurrkar eru að fara illa með laxveiðiárnar, ekki aðeins á Vesturlandi heldur eru laxveiðiárnar í Húnavatnssýslu að verða illa úti. Þar hefur varla rignt í nálega tvo mánuði," segir á svfr.is.

Vantar sárlega rigningu

Vitnað er til Jóns G. Baldvinssonar, umsjónarmanns við Norðurá, sem segir vatnsborð árinnar hafa hríðlækkað undanfarið. Sárlega þurfi að fara að rigna ef ekki eigi illa að fara.

"Ástæðan er ekki einvörðungu vatnsleysi, heldur verði hitastig árinnar mjög hátt eftir daginn sem hreinlega komi í veg fyrir að göngur skili sér sem skildi. Talsverður lax er þó í Norðurá en hann stoppar lítið í neðanverðri ánni og kýs að rjúka beint upp í djúpa damma ofarlega í Norðurárdal. Mikill lax er einnig í Stekknum og hefur það svæði verið aflasælast síðustu vikuna," segir áfram á svfr.is.

Ágætis staða í Dölunum

Tekið er fram að vatnsstaða laxveiðiáa í Dölunum sé með ágætum - þó ótrúlegt sé. Á því sé samt ein undantekning.

"Vatnsvandamál Laxár í Dölum halda áfram en þó er ástandið mun betra en í fyrra hvað laxafjölda áhrærir. Þar er mikið meira af laxi en síðastliðið sumar en í hinni fullkomnu veröld hefði verið blandað saman vatnsmagni fyrra árs og laxafjölda þessa árs. Því miður virðist þetta allt of sjaldan haldast í hendur," segir á svfr.is.






×