Veiði

Norðurá: Mun minna af laxi en undanfarin ár

Gengið til veiða 5. júní og rennslið 30 rúmmetrar á sekúntu. Það var komið niður í 3,5 áður en rigndi lítillega um helgina!
Gengið til veiða 5. júní og rennslið 30 rúmmetrar á sekúntu. Það var komið niður í 3,5 áður en rigndi lítillega um helgina! Mynd/Svavar
Lax er ekki að ganga í neinu magni í Norðurá, og ljóst að mun minna er af laxi en mörg undanfarin ár. Í frétt á síðu SVFR segir að í morgunsárið hafi verið líflegra en undanfarnar vaktir, en ekkert í líkingu við það sem menn eru vanir síðla júlímánaðar. Norðurá hafði gefið rúmlega 700 laxa í gærkvöldi og þegar ljóst að veiðin í Norðurá verður mun minni en mörg undanfarin ár.

Eins og margoft hefur komið fram hefur vatnsskortur spillt fyrir veiði í Norðurá en rennslið var komið niður í 3,5 rúmmetra þegar verst lét. Nú hefur rignt inni á Holtavörðuheiði sem gagnast Norðurá og segir í frétt SVFR að rennslið fór upp í 7 rúmmetra í gær. Má rifja upp að rennslið var 30 rúmmetrar opnunardaginn!

Hítará lífleg


Holl sem lauk veiðum í Hítará á Mýrum í gær hafði 30 laxa upp úr krafsinu. Neðri svæðin hafa verið einkar lífleg, hyljir eins og Kotdalsfljót, Sveljandi og Steinabrot hafa verið líflegir sem er mikil breyting fyrir Hítarárveiðimenn sem síðasta áratuginn hafa vart orðið varir við lax á neðstu svæðunum. Nú er neðri áin að koma til líkt og þekktist á árum áður sem gefur veiðimönnum mjög svo aukið svæði til veiða. Í þokkabót fylgir veiðisvæðið ofan Kattarfoss nú aðalsvæðinu og því leitun að lengra veiðisvæði á Vesturlandi miðað við að aðeins er veitt með sex stöngum.

Aðalsvæðið hafði þá gefið 280 laxa veiði auk tæplega 40 laxa af svæðinu kenndu við Grjótá og Tálma. Hítará er því komin með vel rúmlega 300 laxa veiði.

Risi við þjóðvegsbrúna í Hítará


Risalax sást við ána í fyrradag þar sem hann lá undir þjóðvegsbrúnni í Hítará, og voru menn kallaðir til vitnis þar sem hann lá fyrir allra augum. Var líkt og selur lægi undir brúnni og laxinn álitinn langt yfir tuttugu pundum. Mun meira er af stórum laxi í Hítará en síðustu ár, en því miður hefur hann ekki skilað sér í aflann undanfarið þó svo menn sjái þessa höfðinga stökkva reglulega. Líklega verður þar breyting á með haustinu.

Laxinn hikar við að ganga í Leirvogsá


Leirvogsá hafði gefið tæplega 124 laxa í gærkveldi. Enn hikar laxinn mikið við að ganga upp úr Fitjakosthyl og var tekið á það ráð að laga innstreymi í hylinn og setja það í einn stokk. Vonandi verður það til þess að laxinn gangi greiðar upp úr og skili laxinum upp fyrir þjóðvegsbrúna.

Rólegt í Andakílsá


Úr Andakílsá eru aðeins komnir 40 laxar og veiðin þar mun rólegri en undanfarin ár. Þó skal haft í huga að áin flokkast sem síðsumarsá og besti tíminn að ganga í garð.

Dunká kemur skemmtilega á óvart


Dunká hefur komið mörgum félögum í SVFR á óvart, en áin er stórskemmtileg. Þar fékk enn eitt hollð átta laxa kvótann um helgina og virðist sem að nokkuð sé af laxi en meira rigndi í Dölunum en í Borgarfirði um helgina. Gott vatn er í Laxá í Dölum og talsvert af laxi en því miður tekur hann mjög illa. Veiðistaðurinn Þegjandi er gersamlega stappaður af laxi þessa dagana.

svavar@frettabladid.is






×