Golf

Tevez var kylfusveinn fyrir Andres Romero á opna breska

Stefán Árni Pálsson skrifar
Tevez og Romero á vellinum í dag.
Tevez og Romero á vellinum í dag. Mynd. / Getty Images.
Carlos Tevez, leikmaður Manchester City, nýtur þess að vera í fríi frá knattspyrnu og tók uppá því að vera kylfusveinn fyrir landa sinn Andres Romero á Opna breska meistaramótinu í golfi um helgina.

Það er ekki hægt að segja að Tevez hafi haft góð áhrif á Romero sem lauk lokahringnum á 77 höggum og er sem stendur neðsta sæti mótsins.

Romero vildi samt ekki meina að spilamennskan væri Tevez að kenna, en þeir félagarnir fengu mikla athygli í dag.

„Ég hafði gaman af þessu," sagði Tevez eftir hringinn.

„Þetta var tækifæri sem ég gat ekki neitað, að ganga á þessum fallega velli í kringum alla þessa golfara var frábært. Þetta var mitt fyrsta stórmót," sagði Tevez og hló.

„Mér fannst erfitt að halda á pokanum, hann var frekar þungur. Ég gat ekki gefið Romero neinar ráðleggingar en ég náði að styðja hann á andlega sviðinu, það gekk greinilega ekki vel."

„Ég er ekki að fara leggja knattspyrnuskóna á hilluna og snúa mér að golfi, pokinn var alltof þungur og buxurnar vel þröngar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×