Veiði

Bræður börðust við maríulaxana á sama tíma!

Svavar Hávarðsson skrifar
Bræðurnir Daði og Þröstur með maríulaxana sína sem þeir settu í, og lönduðu, á sama tíma. Nokkrir kílómetrar voru reyndar á milli veiðistaða.
Bræðurnir Daði og Þröstur með maríulaxana sína sem þeir settu í, og lönduðu, á sama tíma. Nokkrir kílómetrar voru reyndar á milli veiðistaða. Mynd/Gunnar Víðir
Miðá í Dölum er kannski ekki sú laxveiðiá sem veiðimenn horfa fyrst til þegar upplýsinga er leitað um veiðitölur eða veiðileyfi. Það er hins vegar svo að Miðá mætti kalla spútniká þessa sumars en veiðin frá opnun hefur verið ævintýraleg. Eftir fyrstu ellefu veiðidagana höfðu veiðst 100 laxar á þrjár stangir.

Miðá er ólíkindatól. Lengi var hún þekkt sem frábær sjóbleikjuá með góðri laxavon en undanfarin ár hefur þetta snúist við. Veiðitölurnar tala sínu máli því árið 2001 veiddust 80 laxar og 1.011 bleikjur. Árið á eftir veiddust 60 laxar og 593 bleikjur. Árið 2005 bregður svo við að 258 laxar veiddust í Miðá en aðeins 184 bleikjur og æ síðan hafa veiðst fleiri laxar en silungar. Árið 2010 var laxveiðin 477 stykki sem er frábær veiði á þrjár stangir sama hvar er borið niður í samanburði.

Veiðin í ár byrjaði með hvelli og lítið er við að styðjast annað en tölfræðina, en innan um allar tölurnar eru þó litlar og merkilegar sögur eins og þessi sem hér verður sögð.

Þröstur Þorsteinsson, fyrrverandi skipstjóri frá Þorlákshöfn, og Sigríður Áslaug Gunnarsdóttir, eiginkona hans, hafa sótt Miðá heim um árabil. Þeirra föruneyti hefur í gegnum árin verið nánasta fjölskylda ásamt fjölskylduvinum. Miðá hefur verið fjölskyldunni gjöful en kannski aldrei eins og þetta sumarið.

Hollið nú í sumarbyrjun samanstóð af Þresti, sonum hans tveimur Gunnari Víði og Þorsteini, en honum fylgdu til veiða synir hans Daði, sem er 21 árs, og Þröstur tíu ára. Væntingar hópsins voru í samræmi við veiði þeirra sem voru á undan þeim í ánni – miklar! Ekki síst þar sem tveir þeir yngstu í hópnum; Daði og Þröstur yngri höfðu aldrei sett í lax og markmiðið lá því þegar ljóst fyrir þegar rennt var upp að vinalegu veiðihúsinu sem stendur spölkorn frá ánni: Tveir maríulaxar og veiðiferðin væri fullkomin!

Klukkan fjögur, og það mun hafa verið á sunnudaginn 8. júlí, hafði hópnum verið skipt upp; Þrestirnir tveir og Gunnar héldu upp að hylnum þar sem Hundadalsá rennur inn í Miðá og þeir feðgar Þorsteinn og Daði héldu að hyl sem hafði gefið vel dagana á undan, Norðurmýrarhyl. Þröstur yngri veiddi strax fallega bleikju í ármótunum en strax og rennt var í hylinn sást lax stökkva litlu neðar.

Sá stutti fékk að renna fyrstur fyrir laxinn, með góðum stuðningi frá afa sínum og ekki liðu nema nokkrar sekúntur þangað til silfurbjartur nýgenginn lax var búinn að taka. Nokkrum mínútum síðar lá fimm pundari á bakkanum; þremur ættliðum til óblandinnar ánægju.

Eins og lög gera ráð fyrir var án tafar hringt í Þorstein, föður Þrastar, til að segja söguna ótrúlegu. Sá stutti var búinn að landa maríulaxinum eftir korter!! Þeirri fregn var tekið með óblandinni gleði, sérstaklega í því ljósi að eldri sonurinn, Daði, var nýbúinn að landa laxi af svipaðri stærð á því augnabliki. Eftir stutta stund lá fyrir að þeir bræður höfðu sett í og landað maríulöxunum sínum á nákvæmlega sama tíma. Einfaldlega stórkostleg byrjun á laxveiðitúrnum; þó ekki verði meira sagt. Korter liðið og takmarkinu þegar náð – ógleymanlegt ævintýri í langri fjölskyldusögu við Miðá.

Áður en yfir lauk komu 23 laxar á land og sjö bleikjur að auki. Laxarnir sem náðust voru allir fallegir smálaxar – þrjú til sex pund en aðrir stærri sluppu með skrekkinn.

Að öðrum ólöstuðum er Þröstur, aðeins tíu ára, hetja þessarar veiðisögu því með góðri hjálp landaði hann sex löxum í þessum fjölskyldutúr í Miðá og tveimur bleikjum. Bróðir hans Daði fór heim með tvo laxa og þrjár bleikjur en setti í marga laxa en missti; þar á meðal í mjög vænan lax sem verður honum án efa jafn eftirminnilegur og þeir sem eru á leið í reyk.

Þeir félagar gáfu Veiðivísi þær upplýsingar að helstu staðirnir í Miðá hafi verið Norðurmýrarhylur, Hamarsendateigur / Teigsbakki, Gilsbakkahylur og Skarðafljót, en þetta eru allt staðir neðarlega í ánni. Laxar voru víðar og tóku agn þeirra félaga en náðust ekki á land, má nefna staði eins og Kirkjuneshyl og Strengina, sem staðkunnungir kannast vel við.

Mikið af laxi lá neðarlega í ánni, sem sýnir hversu kröftugar göngur voru á ferðinni þessa fyrstu daga júlímánaðar. Í Skarðafljóti voru á milli 30 og 50 laxar og í Teigsbakka var annað eins af laxi. Laxinn hélt sig reyndar á fáum stöðum en var aðeins byrjaður að dreifa sér um ána.

Rúsínan í pylsuendanum í þessari veiðisögu er sú staðreynd að viðureign Þrastar yngri við maríulaxinn náðist á mynd. Hér er myndband þar sem má sjá Þröst taka maríulaxinn sinn og er ekki laust við að veiðimannshjartað hlýni við að sjá fölskvalausa gleði þessa unga og efnilega veiðimanns sem hér nýtur leiðsagnar afa síns og alnafna við að setja í og landa þessum mikilvægasta laxi í ævi hvers veiðimanns.

Því má svo bæta við að Miðá er í Miðdölum í Dalasýslu, nokkuð sunnan Búðadals. Er áin að mestu á vinstri hönd þegar ekið er norður Miðdalina. Miðá er dágott vatnsfall er neðar dregur, en hún safnast úr mörgum lækjum og smáám, sem koma úr ótal hliðardölum og giljum. Vondur húsakostur dró nokkuð úr vinsældum Miðár á árum áður, en síðan 1998 stendur þar glæsilegt veiðihús með öllum helsta búnaði. Menn hugsa þó um sig sjálfir þar, sem mörgum finnst eflaust kostur.

svavar@frettabladid.is






×