Helgarviðtal: Skjálfandi á beinunum á bökkum Svartár (fyrri hluti) Garðar Örn Úlfarsson skrifar 21. júlí 2012 08:15 Bjarni Brynjólfsson var í Laxá í Aðaldal í júní og fékk þar þennan stórglæsilega sextán punda lax í Brúarstreng. Mynd / Úr einkasafni. Veiðimaður dagsins hefur veitt sig í gegn um þaraþyrsklinga og marhnúta og fæst jöfnum höndum við flundru og laxfiska. Bjarni Brynjólfsson er fæddur 1963. Hann er upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar og ritstjóri Veiðimannsins. Hér er fyrri hluti bráðskemmtilegs helgarviðtals þar sem þessi margreyndi veiðimaður situr fyrir svörum. Hvenær byrjaðir þú að veiða á stöng og hvað varð þess valdandi að þú byrjaðir að veiða? Ég ólst nánast upp á Norðurtangabryggjunni á Ísafirði og veiddi þar ufsa, þaraþyrskling, kola og marhnút í sparifötunum. Svo kenndi góð kona mér að þræða maðk upp á öngul og renna honum fyrir silung í lítilli á í Önundarfirði þar sem var væn sjóbleikja. Ein af mínum fyrstu minningum frá Ísafirði var þegar mamma kom og reif mig upp frá veiðiskap þar sem ég lá á bryggjukantinum. Mig minnir að það hafi verið fiskur á færinu. Ég var orðinn tveimur tímum of seinn í kvöldmatinn og hún hefur eflaust verið orðin ær af hræðslu um mig. Ég var fimm ára.Hvað var fyrsta veiðivatnið sem þú stundaðir? Litlu árnar í Önundarfirði sem fylltust af bleikju seinnipartinn í ágúst. Svo fékk ég að spreyta mig á bleikjuveiði í Langadalsá í Ísafjarðardjúpi þar sem afi veiddi lax og sjóbirtingsveiði í Laxá í Leirársveit að hausti til.Á hvað veiddir þú og á hvað veiðir þú? Ég var afar fiskinn beituveiðimaður, þó ég segi sjálfur frá, og veiddi helst bara á ánamaðk, laxahrogn og makríl. Ég hóf síðan að prófa mig áfram við fluguna þegar ég sá hvað fluguveiðimönnum gekk vel við veiðiskapinn. Ég trúði þeim alveg þegar þeir sögðu mér að það jafnaðist ekkert á við að veiða lax og silung á flugu. Þetta voru miklu nettari tæki en ég notaði. Ég fékk mína eldskírn í fluguveiðinni Elliðavatni. Ég fékk ekkert fyrstu tvö árin en veiddi þar oft með manni sem kunni að kasta flugu og kenndi mér listina smám saman og kynnti mig fyrir hinum töfrandi heimi silungapúpnanna. Ég hafði mestar áhyggjur af því að silungurinn sæi ekki agnið. Mér gekk betur í Þingvallavatni. Bleikjan þar er ekki jafn vandlát og sú í Elliðavatni og ég hafði meiri trú á flugunum enda sækir kuðungableikjan þar oft í væna bita.Hvenær byrjaðir þú að veiða á flugu? Ég eignaðist fyrsta fluguveiðibúnaðinn árið 1993. Það tók mig nokkur ár að ná þessu og ég er enn að læra. Það er endalaust hægt að bæta við sig þekkingu, bæði á flugum og búnaði enda er fluguveiðin í stöðugri þróun og búnaðurinn alltaf að verða betri.Fyrsti flugufiskurinn? Væn bleikja á silungasvæðinu í Ásgarðslandi í Sogi. Ég kunni þá ekkert að kasta en lét fluguna bara fljóta niður strenginn við Seltanga og fékk nokkrar þannig. Svo komu vænir urriðar á færið í Laxá í Mývatnssveit og maríulaxinn óvænt í Núpá á Snæfellsnesi. Hann tók Mickey Finn straumflugu af stærstu gerð. Síðan er bara engin leið að hætta eins og segir í laginu.Lax, urriði, bleikja, sjóbirtingur? Allar þessar tegundir og murta og flundra til viðbótar. Ég veiði þetta allt jöfnum höndum út tímabilið.Eftirminnilegasti fiskurinn? Þeir eru margir. En sá sem kemur fyrstur upp í hugann er lax sem beit á færi mitt í Hlíðarkvörn í Svartá í Húnavatnssýslu. Ég var með fimmtán feta tvíhendu, sökktaum og stærstu og þyngstu Francestúpu sem til er og veglega þríkrækju frá Kamasan. Ég lagði línuna margoft yfir strenginn til að ná túpunni betur niður endar er talsverður hraði á vatninu þarna. Svo varð allt fast. Ég reigði stöngina aftur og bifaði engu þarna niðri þannig að ég hélt ég væri pikkfastur í botni. Þá lét ég stöngina falla og gaf allt laust eins og maður gerir oft í festum og rykkti síðan duglega í. Svo tók ég eins fast á stönginni og ég þorði og þá loksins hreyfðist eitthvað á botninum. Ég hugsaði með mér að líklega væri ég fastur í stærðar hnullungi sem mér hefði tekist að losa upp af botninum – nema það væri fiskur en þá hlyti hann að vera verulega stór. Um leið og þetta flaug í gegnum hugann kom risavaxinn, silfurbjartur lax þjótandi upp að fótunum að mér. Ég hljóp upp á hól sem er þarna við bakkann til að ná átaki aftur á laxinn. Við það tók laxinn slíka roku niður strenginn að krókurinn losnaði úr skoltinum á honum og bæði línan og túpan komu fljúgandi upp á bakkann líkt og um teygju væri að ræða. Ég stóð eftir skjálfandi á beinunum. Ég sá laxinn mjög vel. Þetta var gríðarstór nýgenginn hængur.Straumvatn eða stöðuvötn? Þingvallavatn er í miklu uppáhaldi og Hraunsfjörðurinn er alltaf skemmtilegur. Þá er hægt að finna mikla hamingju við Elliðavatn því það er svo vandveitt. Ég fæ í raun alveg jafn mikið út úr því að glíma við fjörugar bleikjur í Elliðavatni og stórlax í Aðaldalnum. Á báðum stöðum snýst veiðin um að ginna fisk til að taka agn. Ef eitthvað er þá er erfiðara að veiða í Elliðavatni.Seinni hluti helgarviðtalsins við Bjarna Brynjólfsson verður birtur á Veiðivísi á morgun. Stangveiði Mest lesið 22 útskrifaðir úr námi í veiðileiðsögn Veiði Sumarið gert upp í Víðidalsá Veiði Fyrstu laxarnir á land úr Mýrarkvísl Veiði Sportveiðiblaðið er komið út Veiði Gróska í veiðiþáttum í sumar Veiði Mikil fjöldi erlendra gæsaveiðimanna Veiði Ágæt byrjun lofar góðu í laxveiðiánum Veiði Teljaraniðurstöður úr Gljúfurá Veiði Höfum misst stjórn á refastofninum Veiði Mest sótt um Elliðaárnar Veiði
Veiðimaður dagsins hefur veitt sig í gegn um þaraþyrsklinga og marhnúta og fæst jöfnum höndum við flundru og laxfiska. Bjarni Brynjólfsson er fæddur 1963. Hann er upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar og ritstjóri Veiðimannsins. Hér er fyrri hluti bráðskemmtilegs helgarviðtals þar sem þessi margreyndi veiðimaður situr fyrir svörum. Hvenær byrjaðir þú að veiða á stöng og hvað varð þess valdandi að þú byrjaðir að veiða? Ég ólst nánast upp á Norðurtangabryggjunni á Ísafirði og veiddi þar ufsa, þaraþyrskling, kola og marhnút í sparifötunum. Svo kenndi góð kona mér að þræða maðk upp á öngul og renna honum fyrir silung í lítilli á í Önundarfirði þar sem var væn sjóbleikja. Ein af mínum fyrstu minningum frá Ísafirði var þegar mamma kom og reif mig upp frá veiðiskap þar sem ég lá á bryggjukantinum. Mig minnir að það hafi verið fiskur á færinu. Ég var orðinn tveimur tímum of seinn í kvöldmatinn og hún hefur eflaust verið orðin ær af hræðslu um mig. Ég var fimm ára.Hvað var fyrsta veiðivatnið sem þú stundaðir? Litlu árnar í Önundarfirði sem fylltust af bleikju seinnipartinn í ágúst. Svo fékk ég að spreyta mig á bleikjuveiði í Langadalsá í Ísafjarðardjúpi þar sem afi veiddi lax og sjóbirtingsveiði í Laxá í Leirársveit að hausti til.Á hvað veiddir þú og á hvað veiðir þú? Ég var afar fiskinn beituveiðimaður, þó ég segi sjálfur frá, og veiddi helst bara á ánamaðk, laxahrogn og makríl. Ég hóf síðan að prófa mig áfram við fluguna þegar ég sá hvað fluguveiðimönnum gekk vel við veiðiskapinn. Ég trúði þeim alveg þegar þeir sögðu mér að það jafnaðist ekkert á við að veiða lax og silung á flugu. Þetta voru miklu nettari tæki en ég notaði. Ég fékk mína eldskírn í fluguveiðinni Elliðavatni. Ég fékk ekkert fyrstu tvö árin en veiddi þar oft með manni sem kunni að kasta flugu og kenndi mér listina smám saman og kynnti mig fyrir hinum töfrandi heimi silungapúpnanna. Ég hafði mestar áhyggjur af því að silungurinn sæi ekki agnið. Mér gekk betur í Þingvallavatni. Bleikjan þar er ekki jafn vandlát og sú í Elliðavatni og ég hafði meiri trú á flugunum enda sækir kuðungableikjan þar oft í væna bita.Hvenær byrjaðir þú að veiða á flugu? Ég eignaðist fyrsta fluguveiðibúnaðinn árið 1993. Það tók mig nokkur ár að ná þessu og ég er enn að læra. Það er endalaust hægt að bæta við sig þekkingu, bæði á flugum og búnaði enda er fluguveiðin í stöðugri þróun og búnaðurinn alltaf að verða betri.Fyrsti flugufiskurinn? Væn bleikja á silungasvæðinu í Ásgarðslandi í Sogi. Ég kunni þá ekkert að kasta en lét fluguna bara fljóta niður strenginn við Seltanga og fékk nokkrar þannig. Svo komu vænir urriðar á færið í Laxá í Mývatnssveit og maríulaxinn óvænt í Núpá á Snæfellsnesi. Hann tók Mickey Finn straumflugu af stærstu gerð. Síðan er bara engin leið að hætta eins og segir í laginu.Lax, urriði, bleikja, sjóbirtingur? Allar þessar tegundir og murta og flundra til viðbótar. Ég veiði þetta allt jöfnum höndum út tímabilið.Eftirminnilegasti fiskurinn? Þeir eru margir. En sá sem kemur fyrstur upp í hugann er lax sem beit á færi mitt í Hlíðarkvörn í Svartá í Húnavatnssýslu. Ég var með fimmtán feta tvíhendu, sökktaum og stærstu og þyngstu Francestúpu sem til er og veglega þríkrækju frá Kamasan. Ég lagði línuna margoft yfir strenginn til að ná túpunni betur niður endar er talsverður hraði á vatninu þarna. Svo varð allt fast. Ég reigði stöngina aftur og bifaði engu þarna niðri þannig að ég hélt ég væri pikkfastur í botni. Þá lét ég stöngina falla og gaf allt laust eins og maður gerir oft í festum og rykkti síðan duglega í. Svo tók ég eins fast á stönginni og ég þorði og þá loksins hreyfðist eitthvað á botninum. Ég hugsaði með mér að líklega væri ég fastur í stærðar hnullungi sem mér hefði tekist að losa upp af botninum – nema það væri fiskur en þá hlyti hann að vera verulega stór. Um leið og þetta flaug í gegnum hugann kom risavaxinn, silfurbjartur lax þjótandi upp að fótunum að mér. Ég hljóp upp á hól sem er þarna við bakkann til að ná átaki aftur á laxinn. Við það tók laxinn slíka roku niður strenginn að krókurinn losnaði úr skoltinum á honum og bæði línan og túpan komu fljúgandi upp á bakkann líkt og um teygju væri að ræða. Ég stóð eftir skjálfandi á beinunum. Ég sá laxinn mjög vel. Þetta var gríðarstór nýgenginn hængur.Straumvatn eða stöðuvötn? Þingvallavatn er í miklu uppáhaldi og Hraunsfjörðurinn er alltaf skemmtilegur. Þá er hægt að finna mikla hamingju við Elliðavatn því það er svo vandveitt. Ég fæ í raun alveg jafn mikið út úr því að glíma við fjörugar bleikjur í Elliðavatni og stórlax í Aðaldalnum. Á báðum stöðum snýst veiðin um að ginna fisk til að taka agn. Ef eitthvað er þá er erfiðara að veiða í Elliðavatni.Seinni hluti helgarviðtalsins við Bjarna Brynjólfsson verður birtur á Veiðivísi á morgun.
Stangveiði Mest lesið 22 útskrifaðir úr námi í veiðileiðsögn Veiði Sumarið gert upp í Víðidalsá Veiði Fyrstu laxarnir á land úr Mýrarkvísl Veiði Sportveiðiblaðið er komið út Veiði Gróska í veiðiþáttum í sumar Veiði Mikil fjöldi erlendra gæsaveiðimanna Veiði Ágæt byrjun lofar góðu í laxveiðiánum Veiði Teljaraniðurstöður úr Gljúfurá Veiði Höfum misst stjórn á refastofninum Veiði Mest sótt um Elliðaárnar Veiði