Liverpool vann ekki sannfærandi 1-0 sigur á Hearts í Evrópudeildinni í kvöld en sigurmarkið var sjálfsmark undir lok leiksins. Brendan Rodgers, stjóri Liverpool, var fyrst og fremst ánægður með sigurinn sem kemur Liverpool í fína stöðu fyrir seinni leikinn á Anfield.
„Það sem er mikilvægast í Evrópuleik er að vinna ekki síst á þessum velli fyrir framan þessa frábæru áhorfendur og á móti þessu leikmönnum sem spiluðu vel. Við stjórnuðum leiknum betur í seinni hálfleiknum. Þetta var góður sigur í erfiðum leik og þetta var virkilega góður leikur," sagði Brendan Rodgers eftir leikinn.
Raheem Sterling fékk tækifærið í sóknarlínu Liverpool og var besti maður liðsins. „Raheem Sterling er bara 17 ára og hann er alltaf að bæta leikskilning sinn. Það er mjög spennandi að sjá hann með boltann og hann sýndi nokkur góð tilþrif í kvöld. Það var mikil ógn í honum," sagði Brendan Rodgers um strákinn unga.
