Veiði

Veiðitölur LV: Litlu árnar að gefa flotta veiði

Svavar Hávarðsson skrifar
Miðá í Dölum hefur þegar skilað hærri tölum en í fyrra. Eins og myndin sýnir eru margir fallegir veiðistaðir í Miðá, en hún er viðkvæm fyrir þurrkum og oft vatnslítil. Því er haustið oft drjúgt, svo gaman verður að sjá lokatölurnar.
Miðá í Dölum hefur þegar skilað hærri tölum en í fyrra. Eins og myndin sýnir eru margir fallegir veiðistaðir í Miðá, en hún er viðkvæm fyrir þurrkum og oft vatnslítil. Því er haustið oft drjúgt, svo gaman verður að sjá lokatölurnar. Mynd/Svavar
Ytri-Rangá og vesturbakki Hólsár er áfram gjöfulusta laxveiðisvæðið, samkvæmt nýjustu tölum Landssambands veiðifélaga með 2.588 laxa veidda. Vikuveiðin á svæðinu er 351 lax og telja Lax-ármenn líkur á því að áin nái 5.000 laxa veiði í sumar, en tölurnar úr ánni hafa undanfarin ár verið tvöfalt hærri en veiðin á þessum tíma sumars. Eystri-Rangá kemur á hæla systur sinnar með 2.064 laxa. Kannski er fullsnemmt að lesa í spilin en fátt virðist ætla að koma í veg fyrir að Ytri-Rangá gefi mesta heildarveiði þetta sumarið, eins og í fyrra.

Selá í Vopnafirði
er áfram að skila góðum tölum, en um 80 laxar veiddust þar í vikunni. Selá er komin í 1.181 laxa. Hofsá í Vopnafirði er komin í 742 laxa á sínar 10 stangir og Vesturdalsá 118 laxa á sínar þrjár stangir.

Góður gangur er í Miðfjarðará sem er komin í 1.112 laxa og skilaði rúmlega 140 löxum í vikunni. Haffjarðará hefur náð upp veiði aftur eftir flóðin og nálgast þúsund laxana hratt.

Blanda
er komin á yfirfall. Sex laxar veiddust þar í vikunni og heildarveiðin aðeins 829 laxar. Rúmlega þúsund löxum meiri veiði var í Blöndu á sama tíma í fyrra en þá fór áin mun seinna á yfirfall sem munar auðvitað öllu í þessari frábæru á.

Norðurá
, þrátt fyrir gott vatn, er ekki að ná sér neitt á strik. Enn eina vikuna er vikuveiðin þetta um 30 fiskar. Þó segja sögur að mikið sé af laxi, sérstaklega ofarlega í ánni svo engin ástæða er til annars en að gera ráð fyrir rúmlega þúsund laxa veiði í sumar, andsk... hafi það.

Af öðrum tölum má nefna Elliðaárnar í 744 löxum, en vikuveiðin var aðeins átta laxar á þeim bænum. Það er reyndar á færri stengur en lungan úr sumrinu, en fækkað hefur verið úr sex í fjórar stangir.

Laxá í Kjós
hefur gefið 360 laxa og Aðaldalurinn hefur gefið 354. Þar veiddust 23 í vikunni, svipað og undangengnar vikur. Þar spáir hins vegar kólnandi veðri sem gæti orðið veiðimönnum drjúgur liðsauki. Minna slý og svalara vatn með smá úrkomu.

Fimm smáár á Vestur- og Suðurlandi verðskulda nokkrar línur. Miðá í Dölum hefur skilað betri veiði en allt sumarið í fyrra. Þar hafa veiðst 294 laxar eða 79 betur en í fyrra. Affallið í Landeyjum er á fínum gangi með um 60 laxa veiði viku eftir viku og stendur í 300 löxum. Þá hefur Búðardalsá gefið 241 lax á sínar tvær stangir. Þver á í Fljótshlíð er að gefa ágætlega þrátt fyrir misjafna ástundun. Dunká er líka að gefa vel, segja síðustu fréttir.

Vatnsdalsá
hefur gefið 246 laxa; Víðidalsá 225. Breiðdalsá hefur gefið 220 en þar veiðist aðallega lúsugur stórlax, eins og rafræn veiðibók árinnar segir manni.

Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru og geta áhugasamir sjálfir rýnt í tölurnar á vef Landssambands veiðifélaga - angling.is.

svavar@frettabladid.is






×