Veiði

Eru veiðimenn að upplifa sömu hörmungar og 1984?

Trausti Hafliðason skrifar
Smellið til að stækka grafið.
Smellið til að stækka grafið.
Allt stefnir í að veiðin í ár verði 43 prósentum lakari en meðalveiðin hefur verið frá 2002. Er hægt að bera þetta ár saman við hörmungarárið 1984?

Á vefsíðu Landssambands Veiðifélaga, angling.is, ritar Þorsteinn Þorsteinsson á Skálpastöðum stuttan og áhugaverðan pistil. Í honum kemur fram að veiðin frá 5. til 12. september hafi verið 1.175 laxar sem þýðir að á miðvikudagskvöldið voru 19.750 laxar komnir á land úr viðmiðunarám Landssambands veiðifélaga.

„Miðað við þær góðu laxagöngur, sem við höfum átt að venjast undanfarin ár, þá er veiðin nú í sumar hörmuleg," skrifar Þorsteinn. „Samt er ekki ekki nema rúmur áratugur síðan ástandið var enn verra en þetta. Sumarið 2000 var heildarveiði yfir landið allt 27.257 laxar. Allt bendir til þess að veiðin á landinu öllu verði yfir 30.000 fiskar á þessu veiðitímabili. Hversu mikið er erfitt að spá fyrir um. En mér virðist að frá árinu 1974 hafi komið 10 ár, þegar heildarveiðin náði ekki 30.000 löxum. Minnst aflaðist árið 1984, eða alls 23.582 fiskar."

„Fyrir viku síðan lét ég þess getið að yfirleitt væri veiðin í viðmiðunaránum okkar tveir þriðju af heildarveiði á landinu öllu. Síðan hef ég verið spurður að því hve fylgnin þarna á milli væri mikil, og hversu marktæk hún væri. Því er til að svara að fylgnin er nokkuð góð. Sveiflast frá 69,7 % niður í 63,7 %. Svo virðist sem hlutfallið fari heldur lækkandi síðustu árin, sem gefur þá hærri heildartölu. En jafnvel þó við tökum bara meðaltalið, og gefum okkur að lokatölur úr viðmiðunaránum nái 22.000 löxum þá eru samt líkur á meira en 33.000 laxa ársveiði yfir landið allt. Og frá sumrinu 1974 eru 15 ár, sem skila minni afla en það. Ég veit að þetta er ekki mikil huggun fyrir þá veiðimenn sem öfluðu lítið í sumar, en samt er gott til þess að vita að fyrr hefur veiðst illa og laxagöngur náð sér á strik aftur þrátt fyrir það," skrifar Þorsteinn.

En er hægt að líkja veiðinni í ár við árið 1984?

Versta laxveiðiár frá því mælingar hófust árið 1974 var árið 1984 en þá veiddust tæplega 23.600 laxar. Árið 1982 er næst versta árið en þá veiddust tæplega 24.700 laxar. Hafa verður í huga að þó laxveiðin í ár stefni í að verða á bilinu 30 til 33 þúsund laxar þá hefur ýmislegt breyst hin síðari ár sem gerir samanburð mörg ár aftur í tímann erfiðan. Ber þar helst að nefna að hafbeitarveiði jókst til muna eftir aldamótin og hafa til dæmis Rangárnar borið höfuð og herðar yfir aðrar ár þegar kemur að fjölda veiddra laxa. Annað sem vert er að nefna er að árið 1996 hófu menn að sleppa laxi og hefur hlutfall slepptra laxa aukist jafnt og þétt síðan. Síðustu þrjú ár hefur þetta hlutfall verið í kringum 30 prósent. Mælingar hafa sýnt að í kringum fjórðungur af slepptum laxi veiðist aftur og skekkir það því einnig samanburðinn.

Eftir að hafa ráðfært okkur við Veiðimálastofnun og Þorstein á Skálpastöðum þá tökum við hér á Veiðivísi lítið dæmi sem miðast við það að heildarveiðin í sumar verði um 33.000 laxar. Lesendur verða að taka þessu dæmi með fyrirvara því laxveiðisumrinu er að sjálfsögðu ekki lokið og þær tölur sem við gefum okkur því engan veginn meitlaðar í stein. En látum samt vaða. Sem stendur hafa veiðst um 6.000 laxar í Rangánum (hafbeitarár) og miðað við undanfarin ár er ekki ólíklegt að þegar uppi verður staðið verði þessi tala komin í 7.500 laxa. Ef heildarveiðin verður 33.000 laxar í öllum ám landsins má gera ráð fyrir því, varlega áætlað, að um 20 prósent hafi verið sleppt, eða um 6.600 löxum. Af þeim veiðast um 25 prósent aftur eða 1.650 laxar. Af þeim 33.000 löxum sem veiðast í heildina eru því ríflega 9.000 (7.500+1.650) sem koma úr hafbeitarám eða eru laxar sem veiddir eru aftur eftir að þeim var sleppt. Í grófum dráttum þá er sem sagt veiðin úr "villta"stofninum um 24.000 laxar (33.000-9.000) sem er svipað og hún var þegar laxveiði hér var í hvað mestri lægð, árin 1984 og 1982.

Veiðivísir sló á þráðinn til Þorsteins á Skálpastöðum og spurði hvort það væri nokkuð svo fjarri lagi að bera þetta sumar, með þessum hætti, saman við árin 1984 og 1982.

„Það er í raun ekki óraunhæft að bera þetta svona saman," segir Þorsteinn. "Ég vil reyndar taka það fram að ég er alltaf svolítið smeykur við útreikninga þar sem menn gefa sér svona margar stærðir. Það er samt full ástæða til að taka þessa liði (hafbeit og sleppingar) út þegar bera á veiðitölur í dag saman við veiðitölur fyrir mörgum árum. Það er nokkuð góð hugmynd. Miðað við þetta erum við vissulega komnir nálægt lélegustu árunum og persónulega finnst mér það rýma við ástandið eins og það hefur verið í sumar."

Við þetta má bæta að í sínum útreikningum reiknar Veiðimálastofunun sérstaklega út meðaltalsveiði frá árinu 2002 til 2011(sjá súlurit). Réttast er að bera veiðina nú við þetta meðaltal. Meðaltalsveiðin frá 2002, þegar hafbeitarveiði er orðin mikil og vaxandi sleppingar á laxi, er 55.732 laxar. Það er því ljóst að verði veiðin í ár í kringum 33.000 laxar verður hún 43 prósentum lakari en meðaltalið frá 2002.

Súluritið sem fylgir þessari frétt birtist upphaflega í Fréttablaðinu og hér á Veiðivísi fyrir nokkrum vikum. Þá var rætt við Sigurð Guðjónsson, forstjóra Veiðimálastofnunar, um laxveiðina í sumar. Áhugasamir geta lesið greinina hér.

trausti@frettabladid.is






×