Veiði

Flott veiði í Fossálum í litlu vatni

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Hörkufiskur á leið í land í Fossálum.
Hörkufiskur á leið í land í Fossálum. Mynd / Valdimar Reynisson
"Þetta var alveg ótrúlegur túr," segir Valdimar Reynisson sem var í Fossálum um miðjan mánuðinn. Hollið náði tíu góðum fiskum í metlitlu vatni í ánni.

Með Valdimar í för var Jónas V. Grétarsson og feður þeirra Reynir Vilhjálmsson og Grétar Óskarsson.

"Við félagarnir erum búnir að veiða þarna síðan 1998 og höfum aldrei séð svona lítið vatn í ánni, hún var bara eins og lækur. Hollið sem var á undan okkur var í rigningu og þá hefur komið ganga upp. Það var farið að sjatna aftur þegar við komum en við vorum dálítið heppnir og lentum í rigningu á fyrstu vaktinni. Þá fengum við sjö af þessum tíu fiskum," segir Valdimar.

Hollið á undan feðgahollinu náði sautján fiskum eins og komið hefur fram hér á Veiðivísi.

"Þeim gekk betur en við vorum með þyngri fiska!" segir Valdimar sem sendi frásögn af túrnum til Stangaveiðifélags Keflavíkur sem birti hana síðan á vef sínum. Valdimar gaf Veiðivísi góðfúslega leyfi til að birta frásögnina einnig. Á svfk.is kom fram að tæplega fimmtíu sjóbirtingar voru komnir í veiðibókina eftir ferð feðganna.

Hér er frásögn Valdimars Reynissonar og myndirnar eru sömuleiðis frá honum.

"Helgina 14.-16. september fórum við vinirnir Valdimar Reynisson og Jónas V. Grétarsson ásamt feðrum okkar Grétari Óskarssyni og Reyni Vilhjálmssyni í veiðiferð í Fossála. Þetta var ekki í fyrsta skipti sem við komum þangað og verður örugglega ekki það síðasta.

Aðstæður voru erfiðar. Lítið vatn og megnið af tímanum var glampandi sól og blíða. Engu að síður tókst okkur að ná 10 fiskum á land, 9 sjóbirtingum og einni bleikju.

Stærstu fiskarnir komu úr veiðistað 16, þeir komu báðir á reflex. Tveir fiskar veiddust á veiðistað 14 á maðk, báðir í stóra damminum sem hefur myndast fyrir neðan 14. Einn birtingur fékkst á veiðistað 8 og 4 fiskar náðust á veiðistað 5.

Það er að myndast góður hylur þar sem að syðri állinn rennur út í Fossálana (við skráðum hann sem veiðistað 2), þar kom einn á land en tveir sluppu.

Aldursforsetinn í hópnum veiddi einu bleikju ferðarinnar, hæng sem vóg 2,1 kg í veiðistað 5, á maðk. Sjö fiskar lágu á fyrstu vaktinni en þá rigndi, á hinum vöktunum var bjart, hægur vindur og árangurinn eftir því.

Svona í stuttu yfirliti þá veiddust 7 fiskar ýmist á reflex eða lyppu og 3 á maðk. Í birtunni virtist það vera maðkurinn sem dugði best og í hyljum sem voru vel djúpir.

Okkur félögunum þótti það merkilegt að margir fiskar voru skráðir á veiðistað 17 í veiðibókinni en fáir á 16, sem hingað til hefur verið aðalstaðurinn. Við urðum ekki varir við neitt þar uppi í 17 en veiddum okkar stærstu fiska í 16, tvo 4 kílóa birtinga, sem sagt 16 pund í 16.

Það er greinilegt að það er fiskur um alla á, en hann var tregur að taka sökum vatnsleysis."






×