Veiði

Saga stangveiða: Fnjóská - hin dásamlega afrétt

Svavar Hávarðsson skrifar
Bjarghorn og Malareyrin í Fnjóská. Stórkostlegt veiðisvæði!
Bjarghorn og Malareyrin í Fnjóská. Stórkostlegt veiðisvæði! Mynd/Stangveiðifélagið Flúðir
Áhugi Íslendinga á veiði, og ánum sem gefa okkur bráðina, er ekki nýr af nálinni. Þegar gluggað er í gömul blöð og tímarit má lengi finna áhugaverða greinarstúfa um eitt og annað sem þessu áhugamáli viðkemur og eins um vistkerfi ánna og fikti okkar mannanna; fiskræktinni.

Ingimar Eydal og Fnjóská


Sumarið 1943 skrifaði til dæmis Ingimar Jónatansson Eydal ritstjóri í blað sitt Dag á Akureyri að merkilegir hlutir væru að gerast við Fnjóská, en þar hefði gengið um bakka enskur vísindamaður og aðal veiðimálaráðunautur Bretlands sex árum fyrr og staðfest að Fnjóská væri að verða ein besta bleikjuveiðiá í víðri veröld. Ástæða þessa væri friðun bleikjunnar og einstakt ræktunarstarf til margra ára.

Skrif Ingimars voru formáli aðsendrar greinar Ólafs Sigurðssonar, fiskveiðiráðunauts ríkisins, sem þá hafði í hringferð sinni um landið komið að Fnjóská til athugana á stofni árinnar og framgangi ræktunarstarfsins sem þar var stundað. Fyrirsögn greinar Ólafs, Eyfirzkar bergvatnsár og bleikjurækt: Merkilegur árangur af friðun veiðivatna, segir sína sögu en fróðlegt er þó að rína í textann og lesa á milli línanna; ekki síst með þá mýtu, vil ég kalla, að allar ár hafi verið fullar af fiski í gamla daga og veiðin í dag sé húmbúkk í samanburði.

Í greininni, segir Ingimar, og er sammála Ólafi, að með réttum aðferðum sé auðvelt "að auka stórum fiskimergð í eyfirzkum bergvatnsám, og geti Eyjafjörður þannig á fáum árum orðið eitt hið frægasta bleikjuveiðisvæði, en sú veiði er nú í miklum metum og mjög eftirsótt meðal veiðimanna úti um allan heim."

Nærtækast er að gefa Ólafi orðið, en hann sat við skriftir á Hellulandi 22. ágúst 1943, en umrædd fiskrækt eru umsvif bresks lávarðar, Lionel Fortescue, sem um árabil hafði Fnjóská á leigu og ræktaði þar lax og bleikju, byggði fiskvegi og færði til landsins eitt og annað sem víkja þarf að síðar.

En Ólafur skrifar:

Litið til landnámsaldar

"Í Eyjafjörð falla nokkrar bergvatnsár, sem sumar hverjar gætu orðið hinar ágætustu veiðiár, ef rétt og viturlega væri að þeim búið. Ég á hér við, að þeim leifum af bleikjustofni, sem enn er eftir í þessum ám, sé leyft að vaxa eins hratt og eðlilega og hann hefir möguleika til. Mundi þá eftir nokkur ár, t. d. 10—12 ár, verða það mikil bleikjuveiði í þessum ám, að engin dæmi væru til slíks, síðan á landnámsöld," skrifar Ólafur.

Hann víkur næst að fræðilegum pælingum um vaxtarhraða laxfiska, útskýrir hrygningarmynstur bleikjunnar, í samanburði við lax, en segir svo frá heimsókn sinni til breska lávarðarins.

"Síðastliðna viku hefi ég verið að athuga Fnjóská með hinum enska veiðimanni, Mr. Fortescue, sem leigir hana. Áin hefir verið alfriðuð í 6 ár og auk þess dálítill partur af sjónum báðum megin [við ósa]. Þá var einnig í upphafi friðunartímabilsins gerður fiskvegur upp yfir Laufásfossa. Árangurinn af þessari aðgerð á ánni og 6 ára friðun, er alveg stórkostlegur og mörgum sinnum meiri en bjartsýnustu kunnáttumenn þorðu að vona."

Fiskmergð

Hér lýsir Ólafur Fnjóská og segir að Laufásgljúfrin frá fossi og niður, þar til áin slær sér út, sé tæpir tveir kílómetrar að lengd, og heldur áfram svo athygli manns er vakin fyrir alvöru. "Sjónarvottar hafa sagt mér, að í júlí í sumar hafi stórir partar af ánni í þessum gljúfrum verið bókstaflega fullir af fiski. Fiskmergðin hefir efalaust skipt mörgum þúsundum. Nú síðustu daga hefi ég verið að athuga fiskmagn og hreyfingar fisksins frá degi til dags í Laufásgljúfrum og komizt að þeirri niðurstöðu, með því að telja það sem eg gat séð með þar til gerðu áhaldi, að í gljúfrunum væri ekki minna en 12-1500 fiskar, en gætu verið mikið fleiri. Þó sögðu bændurnir, sem búa nálægt ánni, að fiskurinn væri allur að kalla genginn upp og væri nú ekkert í gljúfrunum, borið saman við fyrri fiskigengd."

Dásamleg afrétt


Hér verður að staldra við. Nú þekki ég ekki til við Fnjóská en þarna eru lýsingar sem ég hef hvergi áður séð frá íslenskri bleikjuá. Stórkostlegt hlýtur að hafa verið að koma að Fnjóská þetta sumar, en framhaldið á ræðu Ólafs vekur ekki síður athygli þegar "tröllasögur" af fiskmergð fyrri ára eru hafðar í huga.

"Ég var hér við ána um 3ja vikna tíma í ágúst 1937 við að gera fiskveginn. AIIan þann tíma sá eg ekki nema fáeina silunga í gljúfrunum. Enski herrann, sem leigir ána og hefir þekkt hana síðan 1912, telur að fiskstofninn hafi 10—12 faldast á þessum 6 árum og meðalþyngd fisksins aukizt til muna. Þessi tilraun með Fnjóská sýnir ákaflega ljóst vaxtarmátt íslenzka bleikjustofnsins og gróðrarmátt eða framfærslumátt veiðivatna okkar, og að Eyjafjörður sjálfur er dásamleg afrétt fyrir bleikjuna."

Nú þarf að hafa hugfast að ýmislegt getur hafa átt sér stað á þessum sex árum sem Ólafur talar um, og ekki má heldur líta fram hjá fölskvalausri aðdáun Ólafs á framtaki hins eðla útlendings. Ólafur var jú einn aðal hvatamaður fiskræktar á Íslandi og hans starf að útbreiða fagnaðarerindið, eða þannig les ég í kallinn.

En Ólafur hvetur bændur að "taka nú fljótt og myndarlega á þessu máli" enda muni það skila því að Eyjafjörður verður " innan fárra ára heimsfrægt bleikjuveiðihérað. Til slíks manndóms treysti eg eyfirzkum bændum ágætlega," skrifar Ólafur þennan dag fyrir tæpum 70 árum.

svavar@frettabladid.is






×