Handbolti

Eins og draugar á fyrstu æfingunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hrafnhildur Ósk Skúladóttir.
Hrafnhildur Ósk Skúladóttir. Mynd/Stefán
Hrafnhildur Ósk Skúladóttir og félagar hennar í kvennaliði Vals voru grátlega nálægt því að komast áfram í Evrópukeppninni um síðustu helgi þegar þær féllu út á móti rúmenska liðinu H.C. Zalau á færri mörkum skoruðum á útivelli.

Það er stutt á milli leikja hjá Valsliðinu sem mætir HK í N1 deild kvenna í Digranesi í kvöld. Þetta verður fimmti leikur liðsins á tíu dögum en leikurinn átti að fara fram um síðustu helgi en var frestað vegna þátttöku Valsliðsins í Evrópukeppninni.

„Við spilum í kvöld og svo á laugardaginn og það er nóg að gera. Við erum nýbúnar að spila tvo Evrópuleiki þannig að maður verður örugglega alveg búinn eftir þessa viku," sagði Hrafnhildur í samtali við Vísi.

„Þessir Evrópuleikir tóku mikinn toll. Það voru draugar sem löbbuðu inn í klefa til þess að gera sig klárar fyrir æfingu í gær. Það voru allar ekki að trúa þessu ennþá og helmingurinn hefur ekki getað sofið," segir Hrafnhildur sem fagnar samt leiknum í kvöld.

„Það er frábært fyrr okkur að fá leik sem allra fyrst og ótrúlega mikilvægt að geta einbeitt sér að næsta verkefni," segir Hrafnhildur en Valskonur hafa unnið alla sjö leiki sína í N1-deildinni til þessa og komast aftur á toppinn með sigri í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×