Nýjasta kynslóð hinnar vinsælu Nintendo leikjatölvu, Wii U, verður kynnt til leiks hjá Ormsson í Lágmúla næstkomandi föstudag 30. nóvember klukkan 10. Mikil eftirvænting hefur verið eftir Nintendo Wii U sem hefur verið hampað sem nýrri og byltingarkenndri kynslóð leikjatölva. Nintendo Wii U fer í almenna sölu um alla Evrópu næstkomandi föstudag.
"Með tilkomu Wii U opnast nýr heimur fyrir tölvuleikjaspilurum þar sem handtölvan (Gamepad) gegnir lykilhlutverki. 6,2" skjár handtölvunnar sýnir leikinn í fullri háskerpu upplausn og frá öðru sjónarhorni en aðrir spilarar sjá leikinn," segir Valur Kristófersson, deildarstjóri hjá Ormsson, í tilkynningu.
Hægt er að nota Nintendo Wii U sem handtölvu eða tengja hana við sjónvarp. Fjarstýringin er í raun framlenging á leikjatölvunni sjálfri. Þannig er viðmótið blásið upp og áhersla lögð á gagnvirka eiginleika tölvuleikjanna. Nýja kynslóð leikjatölvunnar hefur fengið frábærar viðtökur í í Bandaríkjunum en þar seldust alls um 500 þúsund eintök af leikjatölvunni í fyrstu vikunni sem hún var í sölu þar og er Wii U víða uppseld vestanhafs.
Þá verður nýtt og háþróað 75 tommu Samsung LED-sjónvarp frumsýnt í Samsungsetrinu næstkomandi föstudag.
