Framkonur áttu ekki í miklum vandræðum með að vinna ÍBV í kvöld og tryggja sér sæti í úrslitaleik Flugfélags Íslands deildarbikarsins en Fram mætir Val í úrslitaleiknum í Laugardalshöllinni á morgun.
Fram vann ÍBV með 22 marka mun, 40-18, og það var eiginlega aldrei spurning um hvernig þessi leikur færi. Fyrr í kvöld þurftu Valskonur tvær framlengingar og vítakeppni til þess að slá út Stjörnuna en það var aldrei spenna í seinni leiknum.
Ásta Birna Gunnarsdóttir skoraði níu mörk fyrir Fram í kvöld og þær Guðrún Þóra Hálfdánsdóttir og Stella Sigurðardóttir voru með sex mörk hvor. Simona Vintila var atkvæðamest hjá ÍBV með átta mörk.
Fram breytti stöðunni úr 7-5 í 12-5 á þriggja mínútna kafla í fyrri hálfleik og var síðan 21-14 yfir í hálfleik. Framliðið skoraði tólf fyrstu mörk seinni hálfleiks og ÍBV skoraði ekki sitt fyrsta mark í hálfleiknum fyrr en eftir sextán mínútur.
Framliðið var þar með komið í 33-14 og gat hvílt lykilmenn á síðustu fjórtán mínútunum og safnað kröftum fyrir leikinn á móti Val á morgun. Framkonur skoruðu alls sautján hraðaupphlaupsmörk í þessum leik á móti ÍBV í kvöld.
Leikur Vals og Fram hefst klukkan 17.30 í Laugardalshöll á morgun en þetta verður þriðja árið í röð þar sem þessi lið mætast í úrslitaleik Flugfélags Íslands deildarbikarsins. Valur hefur haft betur undanfarin tvö ár.
Leik lokið: Fram - ÍBV 40-18 | Fram mætir Val í úrslitaleiknum
Benedikt Grétarsson í Strandgötu skrifar

Mest lesið



„Hvað eru menn búnir að láta fífla sig út í?“
Íslenski boltinn





Trans konum bannað að spila í kvennaflokki á Bretlandi
Enski boltinn

