„Þetta er besti bókamarkaður sögunnar. Það hefur aldrei gengið jafnvel og nú,“ segir Kristján B. Jónasson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda.
Hinn árlegi bókamarkaður í Perlunni hefur gengið vonum framar og hafa bókhneigðir Íslendingar flykkst þangað að undanförnu. Markaðurinn hófst 24. febrúar og stendur yfir fram á sunnudag. „Það er búið að selja upp um tvö hundruð titla. Þetta eru titlar sem koma ekkert aftur.“ Kristján nefnir sem dæmi að 760 titlar hafi verið í Bókatíðindum í fyrra og því sé þessi sala um þriðjungur af því. „Við erum mjög ánægð með þetta.“
Þegar best hefur látið hafa um tíu þúsund manns komið á markaðinn á dag. Fram til þessa voru árin 2008 og 2009 þau bestu. Salan minnkaði næstu tvö árin á eftir en hefur komið sterk inn núna.
Að sögn Kristján hefur stór bók um Kjarval gengið mjög vel auk þess sem bókin Líf mitt með Mozart eftir Eric-Emannuel Schmitt hefur selst í þrjú til fjögur hundruð eintökum. Telur hann að umfjöllun um bókina í sjónvarpsþættinum Kiljunni hafi hjálpað þar mikið til. Fræðibækur hafa einnig verið óvenju vinsælar í ár en í staðinn hefur dregið úr áhuga á ævisögum. -fb
Mest sótti bókamarkaðurinn
