Handbolti

Stelpurnar okkar sáu aldrei til sólar í Úkraínu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Karen og stöllur hennar náðu engum takti í sóknarleikinn.
fréttablaðið/anton
Karen og stöllur hennar náðu engum takti í sóknarleikinn. fréttablaðið/anton
Íslenska kvennalandsliðið lék gegn Úkraínu ytra í gær í hreinum úrslitaleik um laust sæti á EM. Íslenska liðið varð að vinna leikinn með þremur mörkum til þess að komast á EM í Hollandi en það átti aldrei að vera því íslenska liðið átti undir högg að sækja allan leikinn.

Þegar upp var staðið vann Úkraína með tveimur mörkum, 22-20, en liðið var lengi vel með þriggja til fimm marka forskot.

Íslenska liðið átti ekki sinn besta dag. Sóknarleikurinn hörmulegur allan tímann og klaufaskapurinn oft mikill. Stelpurnar voru í raun sjálfum sér verstar og áttu ekkert skilið úr þessum leik nema markvörðurinn Guðný Jenný sem átti frábæran leik.

„Varnarleikurinn var slakur framan af en frábær í seinni. Það vantaði mikla áræðni í sóknina og svo förum við illa með góð færi á mikilvægum augnablikum. Fyrst og fremst erum við að spila undir getu og það gengur ekki á útivelli gegn Úkraínu," sagði landsliðsþjálfarinn Ágúst Þór Jóhannsson hundsvekktur eftir leikinn. „Við fengum ekki mörk utan af velli og það gengur ekki upp. Við nálguðumst þær en náðum aldrei að stíga skrefið til fulls."

Ísland tapaði einnig fyrri leiknum gegn Úkraínu á heimavelli og Ágúst vill meina að þar hafi draumurinn um EM farið.

„EM-draumurinn fer þar. Við mættum ekki tilbúnar í þann leik en hann áttum við að vinna. Góður sigur þar hefði fleytt okkur á EM."

Íslenska liðið var búið að fara á tvö stórmót í röð og því nokkuð áfall að missa af næsta móti.

„Það er samt margt gott í þessu og liðið að spila vel. Það er mikið af spennandi verkefnum fram undan og við verðum að einbeita okkur að þeim."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×