Íslandsmótið í höggleik í golfi hefst á fimmtudaginn og fer mótið fram á Strandarvelli á Hellu að þessu sinni. Axel Bóasson úr Keili og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR hafa titla að verja á mótinu.
Mikill áhugi var hjá íslenskum afrekskylfingum á mótinu og komust færri að en vildu í karlaflokknum en alls eru 123 karlar skráðir til leiks og 27 konur.
Leiknir verða fjórir keppnishringir á fjórum keppnisdögum – alls 72 holur. Sýnt verður frá mótinu í beinni útsendingu á tveimur síðustu keppnisdögunum á Stöð 2 sport.
Björgvin Þorsteinsson og Úlfar Jónsson hafa sigrað oftast á Íslandsmótinu í höggleik – en þeir eiga báðir 6 titla. Björgvin sigraði í fyrsta sinn árið 1971 og síðast árið 1977 og ef hann verður með á þessu móti verður þetta 49. Íslandsmót hans í röð. Úlfar sigraði í fyrsta sinn árið 1986 og í sjötta sinn árið 1992.
Af þeim sem taka þátt í ár er Birgir Leifur Hafþórsson úr GKG með flesta titla, alls 4.
Karen Sævarsdóttir hefur sigrað oftast á Íslandsmótinu í kvennaflokki – alls 8 sinnum. Ragnhildur Sigurðardóttir úr GR er á meðal keppenda en hún hefur fjórum sinnum sigrað á Íslandsmótinu – fyrst árið 1985 og síðast árið 2003.
