Glæný heimildarmynd um Ísland, séð með augum tveggja ítalskra listamanna, verður sýnd á Riff-hátíðinni. Hún nefnist Tralala og var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum í síðustu viku við góðar undirtektir.
Leikstjórarnir, þeir Nicolò Massazza og Iacopo Bedogni, eyddu sex mánuðum á Íslandi í leit að innblæstri.
Útkoman er mynd sem sýnir lífið á Íslandi korteri fyrir hrun. Fjölmargir Íslendingar tjá sig í myndinni, þ.á.m. Kári Stefánsson, Jón Baldvin Hannibalsson, Bryndís Schram, Friðrik Þór Friðriksson, Elísabet Jökulsdóttir og Thor Vilhjálmsson heitinn.
Í aðdraganda Riff-hátíðarinnar verða haldin þrjú „pöbb-quiz“ á KEXI-hosteli. Hugleikur Dagsson verður spyrill á fyrsta kvöldinu fimmtudaginn 13. september.
