Handbolti

Búin að brosa mikið þrátt fyrir stórt tap

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rakel Dögg Bragadóttir lék sinn fyrsta leik í ellefu mánuði.
Rakel Dögg Bragadóttir lék sinn fyrsta leik í ellefu mánuði. Mynd/Valli
Rakel Dögg Bragadóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins, spilaði um helgina sinn fyrsta leik síðan hún sleit krossband skömmu fyrir HM í Brasilíu fyrir tæpu ári síðan. Rakel Dögg skoraði 3 mörk í tapleik á móti Íslands- og bikarmeisturum Vals í N1-deild kvenna í Mýrinni. Rakel var ekki búin að vera með í þremur fyrstu leikjum Stjörnunnar á tímabilinu þar sem sjúkraþjálfarinn vildi að hún æfði á fullu í fimm til sex vikur fyrir fyrsta leik.

„Þetta gekk bara fínt og mér leið bara mjög vel. Ég var óvenju spræk því ég hélt ég yrði meira hikandi," sagði Rakel Dögg Bragadóttir. „Ég er pínu þreytt og svo fékk ég slink á hnéð í lokin og fór bara út af síðustu tíu mínúturnar. Það er ekkert alvarlegt en maður er orðinn aðeins skynsamari með árunum," sagði Rakel óvenju kát eftir tapleik enda mikill sigur fyrir hana að komast aftur inn á handboltavöllinn.

Hún réðst ekki á garðinn þar sem hann var lægstur heldur steig fyrstu skrefin á móti gríðarlega sterku Valsliði.

„Ég var búin að undirbúa mig andlega að það yrði kannski svolítill skellur að byrja á móti þeim. Valur og Fram eru í sérflokki en það þýðir samt ekkert að önnur lið geti ekki strítt þeim," sagði Rakel og þessi mikla keppnismanneskja gat leyft sér að brosa þrátt fyrir tap í endurkomuleiknum.

„Það er pínu asnalegt hvað ég er búin að brosa mikið í dag miðað við það að ég tapaði með ellefu mörkum. Ég er yfirleitt í fýlu í þrjá daga þegar ég tapa en það var aðeins öðruvísi í dag. Það voru aðrar tilfinningar í gangi. Það er vissulega leiðinlegt að tapa en að sama skapi var ég himinlifandi að vera komin aftur í gang," sagði Rakel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×