Handbolti

Mömmurnar elda ofan í stelpurnar fyrir leik

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Stella er brött fyrir leikina um helgina.	fréttablaðið/vilhelm
Stella er brött fyrir leikina um helgina. fréttablaðið/vilhelm
Fram-stelpur eru brattar fyrir leikina gegn Tertnes í Evrópukeppni félagsliða um helgina en þeir fara fram í dag og á morgun klukkan 16.00. Báðir leikir fara fram í Safamýrinni.

„Þetta er mjög gott lið sem við erum að mæta og við vitum að við þurfum að spila vel til að eiga möguleika. Við höfum séð myndbönd af leik þeirra og ég tel okkar eiga möguleika í þessum leikjum. Ef við fáum góðan stuðning frá okkar fólki þá held ég að við eigum enn meiri möguleika. Stefnan er að komast áfram," sagði stórskytta Fram-liðsins, Stella Sigurðardóttir.

Fram og Valur hafa verið í sérflokki í íslenskum kvennahandbolta undanfarin ár og því ekki mikið um erfiða leiki hjá þeim. „Þar sem við fáum ekki oft erfiða leiki er þeim mun skemmtilegra að spila í Evrópukeppninni. Okkar lið er komið með fína Evrópureynslu og þetta eru skemmtilegustu leikirnir fyrir okkur."

Stella segir að það sé öðruvísi bragur yfir öllu í Evrópuleikjum og liðið þjappi sér betur saman."

„Við gerum margt saman. Förum út að borða saman og svo munu mömmurnar elda ofan í okkur fyrir leik upp í Fram-heimili. Það er ekki verra að fá mömmumat fyrir leiki," sagði Stella létt en stelpurnar hafa safnað peningum fyrir þáttökunni í keppninni með því að selja gulrætur, flatkökur og annað hefðbundið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×