Afar óvænt úrslit urðu á fyrsta keppnisdegi heimsmótsins í holukeppni en þá féllu þeir Tiger Woods og Rory McIlroy báðir úr leik.
Woods tapaði fyrir Charles Howell þriðja, 2/1, en McIlroy fyrir Íranum Shane Lowry, 1/0.
Howell náði góðum fuglum á 15. og 16. holu og setti svo mikla pressu á Tiger á sautjándu holu. Sá síðarnefndi náði ekki að vinna holu til baka og varð því að játa sig sigraðan.
Aðeins 64 efstu kylfingum heims á heimslistanum er boðin þátttaka en Lowry var í 65. sæti þegar raðað var í mótið. Hann komst hins vegar inn eftir að Phil Mickelson, sem er í tíunda sæti listans, ákvað að taka ekki þátt.
Norður-Írinn McIlroy er í efsta sæti heimslistans en Tiger í öðru sæti.
Tiger og McIlroy báðir úr leik
