Veiði

Tilboð á veiðileyfum frá þeim stóru

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Bjarni Júlíusson, formaður SVFR, í önnum í Norðurá í fyrrasumar.
Bjarni Júlíusson, formaður SVFR, í önnum í Norðurá í fyrrasumar. Mynd / Trausti.
Tveir stærstu veiðileyfasalarnir kynna nú tilboð í Norðurá og Tannastaðatanga í sumar.

Stangaveiðifélag Reykjavíkur býður frítt fæði með keyptum leyfum á aðalsvæðunum í Norðurá dagana 23. til 25. ágúst. Stangardagurinn er á 49.900 krónur.

Hjá Lax-á er hægt að kaupa laxveiðileyfi í Tannastaðatanga á mótum Sogs og Hvítár fyrstu tíu dagana í júlí með 23 prósent afslætti. Þá kostar dagsstöngin 17.500 krónur í stað 22.800 króna samkvæmt verðskrá.

Alvanalegt hefur verið að sjá slík tilboð á veiðileyfum hjá Lax-á undanfarin ár. Sjaldgæfara hefur verið að Stangaveiðifélag Reykjavíkur hafi gripið til þessa ráðs. Þá er reyndar undanskilið eftirhrunssumarið 2009 þegar Stangaveiðifélagið bauð félagsmönnum nokkur svæði með allt að helmings afslætti.






×