Veiði

Farsíminn nýja vopnið við bakkann

Trausti Hafliðason skrifar
Hér sést viðmót Veiðibókarinnar í snjallsíma. Slóðin er m.veidibok.is.
Hér sést viðmót Veiðibókarinnar í snjallsíma. Slóðin er m.veidibok.is. Mynd / Trausti Hafliðason
Nýr farsímavefur fyrir stangveiðimenn er kominn í loftið. Markmiðið er að hjálpa veiðimönnum að uppgötva ný veiðisvæði og veiða betur og meira þegar á bakkann er komið. Farsímavefurinn byggir er á gagnagrunni vefsíðunnar www.veidibok.is sem er mörgum kunn. Þegar menn skrá sig inn á vefinn úr símanum slá þeir m.veidibok.is (í staðinn fyrir www setja menn sem sagt m).

„Við bjuggum til farsímavef þar sem við töldum okkur geta veitt þjónustu sem nýtist veiðimönnum á fleiri stöðum en fyrir framan tölvuskjáinn heima," segir Stefán Orri Stefánsson í samtali við Veiðivísi. Stefán Orri á Veiðibók.is ásamt Friðriki Runólfssyni og reka þeir vefinn saman í sjálfboðavinnu.

Upplýsingar um ríflega 300 veiðisvæði

Alls eru yfir 600 notendur að Veiðibók.is. Margir nota vefinn til að skrá sinn afla, hvaða flugu þeir notuðu og hvar nákvæmlega þeir veiddu fiskinn. Á nokkrum árum hefur því orðið til nokkuð stór gagnagrunnur með upplýsingum um ríflega 300 veiðisvæði, fjölda veiðiferða og lýsingum á yfir 100 flugum.

„Stór hluti stangveiðimanna er með snjallsíma og vill geta nálgast góðar upplýsingar um veiði í þeim," segir Stefán Orri. „Þegar við sáum möguleika á að taka saman gögn sem nýtast á ferðinni og jafnvel í veiðinni sjálfri þá fannst okkur það eiga fullt erindi við veiðimenn. Farsímavefurinn er ókeypis og aðgengilegur í öllum snjallsímum, spjaldtölvum og borðtölvum."

GPS birtir upplýsingar um nálæg veiðivötn


Að sögn Stefáns Orra notast farsímavefurinn við GPS í farsímum til að birta notendum upplýsingar um nálæg vötn.

„Á allra næstu vikum munu bætast við upplýsingar um flugur, myndir af þeim og tenging við veiðisvæði þannig að hægt verði að sjá helstu flugur sem mælt er með á hverju svæði fyrir sig," segir Stefán Orri. „Aðrir þættir eru í skoðun, bæði aðlögun á virkni sem er til staðar á aðalvefnum, Veiðibók.is, og eins alveg ný atriði. Eins munum við fylgjast með viðbrögðum notenda og hlusta á tillögur þeirra þegar við ákveðum næstu skref."

Aðspurður segir Stefán Orri ekki útilokað að app bætist við seinna meir. „Það fer eftir því hvernig viðbrögð við fáum við nýja vefnum."

trausti@frettabladid.is








×