Veiði

Stangveiði á Íslandi veltir 20 milljörðum

Svavar Hávarðsson skrifar
Menn fara varlega í að spá fyrir næsta sumar um laxveiðina. Hins vegar er margt sem virðist hafa verið laxinum hagfellt í fyrra. Hafið er áfram stærsti óvissuþátturinn.
Menn fara varlega í að spá fyrir næsta sumar um laxveiðina. Hins vegar er margt sem virðist hafa verið laxinum hagfellt í fyrra. Hafið er áfram stærsti óvissuþátturinn.
Nýting veiðihlunninda er ein af stærstu búgreinum á Íslandi. Velta greinarinnar er um 20 milljarðar króna á ári. Um þriðjungur þjóðarinnar stundar stangveiði.

Þetta var meðal þess sem kemur fram í skrifum Sigurðar Guðjónssonar, forstjóra Veiðimálastofnunar, í ársskýrslu sem kom út í tilefni ársfundar stofnunarinnar í gær.

Sigurður segir jafnframt að hátt á annan milljarð króna séu beinar tekjur veiðifélaga. Nýting veiðihlunninda sé ein af stærstu búgreinum landsins og afar mikilvæg fyrir búsetu víða í sveitum landsins.

Sérfræðingar Veiðimálastofnunar héldu erindi um stöðu íslenska laxastofnsins á fundinum í gær. Guðni Guðbergsson og Sigurður Már Einarsson ítrekuðu það sem áður hefur komið fram í rannsóknum þeirra að hrun í laxastofninum verði fyrst og síðast rakið til aðstæðna í hafinu. Spá fyrir næsta sumar var lágstemmd en jákvætt að aðstæður í sjó virðast hagfelldari en árið áður. Breytingar vegna hlýnunar sjávar gera hins vegar allar spár mjög erfiðar.

Um þriðjungur þjóðarinnar stundar stangveiði, segir Sigurður, og segir að arðsemi af hverjum veiddum fiski sé óvíða meiri. „Skiptir þar sköpum að nýting í stangveiði er byggð á félaglegum grunni sem er nátengd vaxandi ferðaþjónustu í dreifðum byggðum landsins."

Á ársfundinum vék Sigurður að áhyggjum sínum varðandi flutning stofnunarinnar á milli ráðuneyta. Breytingin skapar óvissu um tækifæri til tekjuöflunar einkum er snýr að aðgengi að rannsóknasjóðum sem nú eru hýstir hjá Atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti, en stofnunin var færð undir ráðuneyti umhverfis- og auðlindamála í haust.

„Við höfum notið aðgengis að sjóðum sem áður voru í vörslu sjávarútvegsráðuneytisins [...] en óvissa um hvort við njótum góðs aðgengis að þeim sjóðum, eins og áður, þá þýðir það verulega skerðingu á okkar getu," sagði Sigurður og bætti við að fjármagn til stofnunarinnar hefði verið bundið við nýtingarmál veiðimála en „ef við eigum að sinna umhverfishliðinni betur þá þarf augljóslega meira fjármagn til."

Stofnunin hafði í fyrra 120 milljónir í sértekjur en fjárveiting ríkisins rétt rúmar 100 milljónir.

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, hélt stutta tölu á fundinum. Af henni mátti skilja að áhyggjur forstjóra væru óþarfar; Veiðimálastofnun ætti vel heima í nýju ráðuneyti og vigt hennar myndi verða meiri með þessum breytingum.

svavar@frettabladid.is






×