Veiði

93 fiskar á land í Litluá

Kristján Hjálmarsson skrifar
Einn vænn af opnunardeginum. Myndin er fengin af vefnum Litlaá.is
Einn vænn af opnunardeginum. Myndin er fengin af vefnum Litlaá.is Mynd/Stefán Hrafnsson
Alls komu 93 fiskar á land fyrsta veiðidaginn í Litluá í Kelduhverfi sem hlýtur að teljast aldeilis góð byrjun á veiðitímabilinu. Helmingur fiskanna var yfir 50 sentimetrar en bleikjur, birtingur og staðbundinn urriði veiddist, að því er segir á vef Litluár. Öllum fiskunum var sleppt.

Litlaá í Kelduhverfi, sem er rúma 50 kílómetra austan við Húsavík, er bergvatnsá, sem upprunalega átti sér eingöngu upptök í lindum sem heita Brunnar við bæinn Keldunes. Frá 1976 á hún sér einnig upptök í Skjálftavatni en það myndaðist við jarðsig í Kröflueldum.

Vatnið úr Brunnum er óvenju heitt og blandast kaldara vatni úr Skjálftavatni, þannig er meðalhiti vatnsins í ánni um 12°C. Vaxtahraði fiska í Litluá er mikill undir þessum kringumstæðum og er sjóbirtingsstofn árinnar því einn sá stærsti hér á landi, að því er segir á vefnum Litlaá.is.

Auk sjóbirtings og staðbundins urriða veiðist nokkuð magn af sjóbleikju og einnig er von um lax í Litluá.

Árið 2004 kom á land stærsti sjóbirtingur landsins, 23 punda risi.






×