Veiði

Korpa rannsökuð niður í grunninn

Svavar Hávarðsson skrifar
Korpu hefur verið lýst sem háskóla fluguveiðinnar; Hreggnasi selur veiðileyfi fyrir áhugasama. Sjá hreggnasi.is
Korpu hefur verið lýst sem háskóla fluguveiðinnar; Hreggnasi selur veiðileyfi fyrir áhugasama. Sjá hreggnasi.is Mynd/Hreggnasi
Nýlega hóf Veiðimálastofnun rannsókn á grunnþáttum í lífríki Úlfarsár, eða Korpu, eins og hún er einnig nefnd. Óhætt er að fullyrða að hér sé um tímamótarannsókn að ræða því frumframleiðni hefur ekki áður verið mæld í straumvatni á Íslandi.

Frumframleiðni er í grunninn framleiðsla á lífrænu efni úr koldíoxíð og nánast allt líf á jörðinni er á einn eða annan hátt háð því ferli. Frumframleiðendur eru þær lífverur sem geta beislað orku sólarljóssins og nýtt hana til þessarar framleiðslu. Lífræn efni sem þannig myndast, nýtast í efri þrepum fæðukeðjunnar og er því á óyggjandi hátt undirstaða fyrir öllu lífi. Þörungar eru án efa afkastamestir meðal frumframleiðenda í ám hér á landi. En auk þeirra eru mosar og háplöntur einnig mikilvægir hlekkir í fæðukeðjum. Þessar lífverur eru því undirstaða fyrir aðrar lífverur í vatni, til dæmis laxfiska.

Í áratugi hefur Veiðimálastofnun fylgst með fiskstofnum í straumvatni, meðal annars fjölda og ástandi laxaseiða, göngu þeirra til sjávar og fjölda þeirra sem endurheimtast úr hafi sem fullorðnir laxar. Hefur aðferðum og tækni við að fylgjast með þessum þáttum þróast mikið t.d. í merkjum til að fylgjast með fari fiska og fiskteljurum sem fylgjast með uppgöngu laxfiska eftir sjávardvöl.

Enn í dag er of lítið vitað um þá grunnþætti sem takmarka stofnstærðir íslenskra laxfiska, bæði á meðan þeir dvelja í ferskvatni og einnig í sjó. Með það að markmiði að dýpka vitneskju um líffræði laxfiska í ám hérlendis hefur Veiðimálastofnun í æ ríkara mæli beint athyglinni að því að afla upplýsinga um umhverfi og lífsskilyrði laxfiska á meðan þeir dvelja í ánum og síðan eftir að þeir ganga til sjávar.

Rannsóknum sem tengjast sjávarþættinum hefur verið sinnt í nokkur ár á Veiðimálastofnun, og eru niðurstöður þeirra rannsókna að birtast smám saman. Í Úlfarsá hefur nýverið hafist ítarleg rannsókn á neðstu fæðuþrepunum. Rannsókninni er stýrt af Friðþjófi Árnasyni og Ragnhildi Þ. Magnúsdóttur, líffræðingum á Veiðimálastofnun, og er unnin í samstarfi við aðra sérfræðinga á stofnuninni og erlenda vatnalíffræðinga sem hafa tímabundið aðsetur á Veiðimálastofnun. Rannsóknin mun standa yfir fram á mitt ár 2014.

Enn hefur ekki fengist styrkfé til að sinna rannsókninni sem skildi en fáist fé til rannsóknanna er stefnan að víkka út núverandi mælingar og gera þær bæði nákvæmari og ítarlegri.






×