Veiði

Fiskifræðingur sakar verktaka um gróft brot

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Hrygningarsvæði urriða úr Skorrdalsvatni er langt frá því eins illa farið og fréttir hermdu fyrir nokkrum dögum.
Hrygningarsvæði urriða úr Skorrdalsvatni er langt frá því eins illa farið og fréttir hermdu fyrir nokkrum dögum.
Fiskifræðingur sakar verktaka um gróft brot á skilmálum með malartöku úr Fitjá. Urriði þar hafi þó enn nægt rými til hrygningar.

Fréttir voru sagðar af því í síðustu viku að mikilvæg hrygningarsvæði urriða úr Skorradalsvatni hefðu verið stórskemmd með malartekju úr Fitjá. Jón Kristjánsson fiskifræðingur, sem gerði umsögn vegna malartekjunnar áður en hún var leyfð, segir heimildina hafa verið veitta með því skilyrði að ekki yrði hreyft við ánni. Þetta kemur fram í pistli sem Jón sendi Stangaveiðifélagi Reykjavíkur og birtur er á vef félagsins.

Meðal þess sem Jón segir er að taka hafi átti möl í námu nálægt Fitjá en alls ekki úr henni sjálfri. Jafnvel þótt verktakinn hafi engu að síður farið í ánna sé skaðinn ekki mikill fyrir urriðann. Þótt um tvö hundrað metra hrygningarsvæði hafi ónýst hafi urriðinn enn þriggja kílómetra langt svæði til að athafna sig.

Hér á eftir fer yfirlýsing Jóns til Stangaveiðifélags Reykjavíkur í heild sinni:

"Vegna fréttar um malartöku í Fitjaá á vef ykkar í gær, þar sem fram kemur að ég hafi gefið umsögn um malartekjuna, vil ég að eftirfarandi komi fram.

Leyfi til malartöku var veitt með þeim skilyrðum að alls ekki yrði yrði hreyft við ánni og því er ljóst að verktakinn, sem tók þarna möl, fór freklega yfir þau mörk, sem honum voru sett. Malartakan var ekki á vegum landeiganda.

Í umsögn minni sagði:

"Ábúendur Fitja báðu mig um að gefa álit á væntanlegri malartekju á skilgreindu námasvæði við ána, nokkru ofan við ós árinnar í Skorradalsvatn. Áætlað er að taka möl til hliðar við ána, án þess að taka nokkuð úr ánni sjálfri. Tekið verður ofan af gamalli námu án þess að fara lægra en áin. Þá er ætlunin að gera garð ofarlega á námasvæðinu til að hindra framhjáhlaup í flóðun með tilheyrandi rofi á vatnsbökkum."

"Ekki verður nein breyting á ánni eða hrygningarstöðum. Malartekjan er að mínu mati hættulaus en rétt þykir þó að framkvæmdin verði utan hrygningartíma sem er októbermánuður. Áin mun væntanlega hlaða möl á svæðið í tímans rás".

Í fréttinni í gær [á fimmtudag] var því haldið fram að um 2/3 af mikilvægasta hrygningarsvæði árinnar hefði verið mokað upp og mætti því ætla að áin lægi ónýt eftir.

Þetta er ekki rétt, svæðið sem skemmt hefur verið er um 200 m langt en urriðinn hefur aðgang að um þriggja km hrygningarsvæði, sem hann notar, enda finnast urriðaseiði um alla ána. Ég tel að þau áhrif sem moksturinn hefur haft á hrygningu og afkomu urriða í ánni séu hverfandi.

Það breytir þó ekki því að verktakinn hefur brotið gróflega þá skilmála, sem settir voru.

Umsókn mína um malartöku, ásamt rannsóknaskýrslu um Skorradalsvatn frá 2010, má finna á slóðinni: https://www.fiski.com/skorra.html. Í þeirri skýrslu er m.a. fjallað um kvikasilfur í urriða og hrygningarstöðvar urriða.

Jón Kristjánsson, fiskifræðingur."






×