Veiði

Stjórn Norðurár sér sjálf um veiðileyfasölu sumarið 2014

Trausti Hafliðason skrifar
Bjarni Júlíusson, formaður Stangaveiðifélags Reykjavíkur, þreytir lax við opnun Norðurár í fyrra.
Bjarni Júlíusson, formaður Stangaveiðifélags Reykjavíkur, þreytir lax við opnun Norðurár í fyrra. Mynd / Trausti Hafliðason

Veiðifélag Norðurár hefur ákveðið að fela stjórn félagsins að sjá um sölu veiðileyfa sumarið 2014. Verður það gert í samvinnu við Einar Sigfússon, eiganda Haffjarðarár. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Veiðifélagið hefur sent frá sér.

Birna G. Konráðsdóttir, formaður Veiðifélags Norðurár, segir í samtali við Veiðivísi að ekki sé verið að leigja Einari Norðurá heldur sé félagið að fara í samvinnu við hann. Það sé gert vegna þess að Einar sé vel kunnur laxveiðinni hérlendis og hafi góð viðskiptasambönd, ekki síst erlendis. Hvað gerist síðan eftir sumarið 2014 sé óráðið.

Nýtt útboð ekki verið rætt

„Menn eru bæði bjartsýnir og kvíðnir fyrir laxveiðisumrinu enda mikil óvissa eftir lélega laxveiði um nánast allt land síðasta sumar," segir Birna. Aðspurð hvort áin verði boðin út að nýju eftir sumarið 2014 segir Birna að það hafi bara ekki verið rætt. Stjórnin sé sátt við þá niðurstöðu sem liggi nú fyrir. Ekki sé verið að loka neinum dyrum.

Eins og flestum er kunnugt slitnaði upp úr samningaviðræðum Stangaveiðifélags Reykjavíkur (SVFR) og Veiðifélags Norðurár fyrir áramót. Þar með varð ljóst að 67 ára samstarfi þessara aðila lyki, að minnsta kosti í bili.

Ætla ekki að skella á nefið á SVFR

„Það er alls enginn biturleiki hjá okkur út í Stangaveiðifélagið og ég vona sannarlega að það sé gagnvæmt," segir Birna.  „Við ætlum ekki að skella á nefið á þeim og ég vona þeir geri það ekki við okkur en þessi niðurstaða hefur kannski svolítið legið í loftinu."

Í tilkynningunni kemur fram að stefnt sé að því að byggja upp og bæta aðstöðu veiðimanna við Norðurá.

„Við ætlum að fara yfir húsakostinn," segir Birna. „Það er svo sem ekki búið að negla neitt niður þessum efnum en við erum ekki að fara að byggja nýtt veiðihús heldur ætlum við bara að skoða hvað við getum gert. Við verðum að stíga öll skref varlega í ljósi þess hve óvissan í laxveiðinni er mikil."

Hér er tilkynning Veiðifélagsins:

„Félagsfundur í Veiðifélagi Norðurár ákvað að fela stjórn að sjá um sölu veiðileyfa í samvinnu við Einar Sigfússon. Ákveðið var fara þessa leið í ljósi þeirrar óvissu sem er framundan. Jafnfram verður stefnt að því að byggja upp og bæta aðstöðuna fyrir veiðimenn eftir því sem geta leyfir.

Nú standa veiðiréttareigendur við Norðurá á krossgötum. Fyrir liggur að löngu samstarfi við SVFR lýkur í haust á þeim nótum sem verið hefur. Þeir hafa unnið ómælt starf við ána, bæði stjórnir og árnefndir. Stjórn Veiðifélags Norðurár vill sérstaklega þakka þeim samvinnuna í gegnum tíðina og óskar SVFR alls hins besta um ókomin ár."

Einar Sigfússon var í upphafi fréttarinnar titlaður sem eigandi Haffjarðará en það helgast af því að veiðirétturinn í Haffjarðará fylgir ekki landi heldur er hann sérmetin fasteign.

trausti@frettabladid.is






×