Leikjavísir

Dust 514 kemur út í dag

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Í dag sendir tölvuleikjaframleiðandinn CCP frá sér nýjan skotleik, Dust 514.

Leikurinn er gerður fyrir PlayStation 3 leikjavélar og gerist í sama sýndarheimi og fjölspilunarleikurinn Eve Online, sem fagnar tíu ára afmæli sínu í ár. Eve Online hefur stækkað og eflst með hverju ári og eru áskrifendur hans í dag rúmlega 500.000. Ljóst er að með tilkomu Dust 514 stækkar Eve heimurinn umtalsvert.

Með sama hætti og CCP hefur viðhaldið vexti Eve Online hyggst fyrirtækið gefa út sérstakar viðbætur við Dust 514 með reglulegu millibili. Tilgangur viðbótanna er að búa til ný og spennandi tækifæri fyrir spilara leiksins, auk þess sem ýmsar endurbætur eru gerðar í samræmi við óskir og væntingar spilara hans. Næsta viðbót við Eve Online, Odyssey, kemur út þann 4. júní, og síðar í ár er ráðgert að fyrsta stóra viðbótin við Dust 514 líti dagsins ljós.

Dust 514 verður fáanlegur án endurgjalds í gegn um PSN-dreifikerfi Sony, og er þar með fyrsti leikur sinnar tegundar til að styðjast við nýtt viðskiptamódel, svokallaða „Free to play“ útgáfu. Leikurinn sjálfur er þá fáanlegur án greiðslu, en tekna aflað með sölu á vopnum, farartækjum og ýmsum öðrum varningi í leiknum sjálfum. Spilarar geta þannig aukið við upplifun sína við spilun leiksins með margvíslegum hætti. Framleiðendur PC leikja hafa sumir hverjir náð góðum árangri með „Free to play“ útgáfum og eru slíkir titlar meðal þeirra stærstu í tölvuleikjaiðnaðinum í dag. CCP fer nú inn á markað leikjatölva með þetta viðskiptamódel.

Dust 514 er fjölspilunarskotleikur þar sem spilarar berjast um landsvæði, auðlindir og áhrif og nota til þess herkænsku, áræðni og samskipti við aðra spilara. Leikurinn gerist á plánetum í sama sýndarheimi og Eve Online, fjölspilunarleik CCP sem gefin var út árið 2003 og er leikinn gegnum PC-tölvur. Þar sem leikirnir gerast í sama heimi tengir Dust 514 saman leikjaheim PC og leikjatölva, fyrstur allra tölvuleikja. Á meðan spilarar EVE Online stjórna geimskipum EVE heimsins sjá spilarar Dust 514 um atburðarrásina á yfirborði pláneta. Spilarar leikjana geta þannig hvor sig haft áhrif á framvindu mála í báðum leikjunum.

Mynd/CCP
Mynd/CCP
Mynd/CCP
Mynd/CCP
Mynd/CCP
Mynd/CCP





Fleiri fréttir

Sjá meira


×