Veiði

Hafna fullyrðingum um riftun samnings í Eldvatni

Trausti Hafliðason skrifar
Eldvatn er góð sjóbirtingsá.
Eldvatn er góð sjóbirtingsá. Mynd / Trausti Hafliðason

Veiðifélag Eldvatns hefur móttekið allar umsamdar greiðslur frá Verndarsjóði sjóbirtingsins. Samningnum hefur því ekki verið formlega rift segir í tilkynningu frá sjóðnum.

Hér er tilkynning Verndarsjóðsins:

„Að gefnu tilefni viljum við sem stöndum að félaginu koma því á framfæri að í mars síðastliðnum  var undirritaður leigusamningur um stangaveiðirétt í Eldvatni í Meðallandi við stjórn Veiðifélags Eldvatns. Frá því að samningurinn tók gildi 1. apríl hefur félagið uppfyllt allar skuldbindingar sem kveðið er á um í samningnum og Veiðifélag Eldvatns móttekið allar umsamdar greiðslur samkvæmt samningnum. Samningi þessum hefur ekki verið formlega rift eins og lesa má í fréttamiðlum.”

Undir tilkynninguna skrifa forsvarsmenn Verndarsjóðsins, þeir Jón Ingvar Ragnarsson bæklunarlæknir, Guðmundur Hilmarsson flugstjóri, Pálmi Gunnarsson tónlistarmaður og Þórarinn Blöndal myndlistarmaður.

Í byrjun vikunnar greindi Veiðivísir, og fleiri fjölmiðlar, frá því að samningi Veiðfélags Eldvatns við Verndarsjóðinn hefði verið rift í kjölfar átaka á aðalfundi Veiðifélagsins í byrjun maí. Sjö ára leigusamningur við Verndarsjóðinn hafði verið undirritaður í mars, eins og kemur fram í tilkynningunni, og var það gert að undangengnu útboði þar sem þrjú tilboð bárust.

Í útboðinu var Unubót, óstofnað veiðifélag, var með hæsta tilboðið en það hljóðaði upp á um 5 milljónir króna. Verndarsjóður sjóbirtingsins bauð um 4 milljónir króna í ána og Hreggnasi um 2 milljónir.

trausti@frettabladid.is


Tengdar fréttir

Eldvatn: Tilboð undir væntingum

Þrjú tilboð bárust í Eldvatn og var það hæsta upp á um 5 milljónir króna sem er töluvert undir væntingum. Tilboðin voru opnuð á laugardaginn.

Pálmi Gunnars og félagar leigja Eldvatn

Veiðifélag Eldvatns hefur samið við Verndarsjóð sjóbirtingsins um leigu á Eldvatni næstu sjö árin. Samkvæmt heimildum blaðsins er leiguverðið í kringum 4 milljónir á króna á ári eða um 28 milljónir fyrir samningstímann.

Riftu samningi við Pálma Gunnars og félaga

Veiðifélag Eldvatns hefur rift samningi við Verndarsjóð sjóbirtingsins, sem Pálmi Gunnarsson tónlistarmaður, er meðal annars í forsvari fyrir. Veiðipressan greindi frá þessu í morgun. Veiðivísir hefur heimildir fyrir því að mikil átök hafi verið á aðalfundi veiðifélagsins fyrir skömmu






×