Veiði

Áhugaverð kenning um smálaxagöngur

Trausti Hafliðason skrifar
Tay er gríðarlega vatnsmikil. Hér sést veiðimaður úti í á að veiða.
Tay er gríðarlega vatnsmikil. Hér sést veiðimaður úti í á að veiða.

Veiðin í ánni Tay í Skotlandi, sem er ein af bestu laxveiðiám Bretlandseyja, tók stökk í apríl  samanborið við sama mánuð í fyrra. Þetta kemur fram á breska vefnum The Telegraph.

Skráður afli í apríl var 700 laxar en þar með er ekki öll sagan sögð því skráningar eru alfarið í höndum leiðsögumanna og því telur The Telegraph ekki ólíklegt að talan sé í kringum 900 laxar. Í sama mánuði í fyrra veiddust 307 laxar í Tay. Þess má geta að veitt er í Tay frá 15. janúar til 15. október.

Smálaxinn er lengur í sjónum í leit að æti

Líkt og á Íslandi brugðust göngur eins árs laxa í Tay í fyrra. Dr. David Summers, yfirmaður veiðimála í Tay, telur að orsakasamband sé á milli lélegra smálaxaganga og góðrar vorveiði. Summers leiðir líkum að því að vegna slæmra aðstæðna í sjónum við Bretlandseyjar fari eins árs laxinn nú lengra norður í leit að æti. Þetta gæti þýtt að „smálaxinn" þurfi að dvelja í sjónum í tvö ár áður en hann snúi til baka.

Í ljósi afar daprar laxveiði víðast hvar á Íslandi síðasta sumar er þessi kenning Summers auðvitað áhugaverð. Hvort það sé hins vegar hægt að yfirfæra hana yfir á íslenskar ár skal ósagt látið.

Stærsti laxinn vó 64 pund

Auk þessa segir Summers að kalt vor hafi hjálpað til í Tay. Í þannig aðstæðum gangi laxinn hægar upp ána og því sé auðveldara að veiða hann.

Þessar aðstæður, það er góð vorveiði í kjölfar lélegra smálaxaganga sumarið á undan, eru þær sömu og á þriðja áratug síðustu aldar en þá veiddist einmitt stærsti lax sem veiðst hefur á stöng á Bretlandseyjum. Það var Georgina Ballantine sem veiddi laxinn í Tay árið 1922 og vó hann 64 pund. Í síðustu viku veiddist 36 punda lax í Tay og það sem af er þessu veiðiári hafa veiðst þónokkrir laxar yfir tuttugu pund og nærri þrjátíu pundunum.

„Þetta eru laxarnir sem Tay var alltaf fræg fyrir," segir Summers.

Þeir veiða og sleppa í Tay

Tay er lengsta á Skotlands og ein sú frægasta. Síðustu ár hafa veiðst á bilinu 9 til 11 þúsund laxar í ánni. Á undanförnum árum hafa verið ansi strangar reglur í gildi um að sleppa löxum. Frá 15. janúar og til 31. maí ber veiðimönnum að sleppa öllum laxi. Eftir það, eða frá 1. júní og til 15. október, verður að sleppa öllum hrygnum og öllum hængum yfir tíu pundum. Veiðimenn mega aðeins drepa einn hæng undir tíu pundum á dag. Aðeins er leyfilegt að veiða á maðk frá júní og út ágúst.

Af öðrum heimsfrægum laxveiðiám í Skotlandi má nefna Spey, Tweed og Dee.






×