Scott Weiland hefur höfðað mál gegn fyrrverandi félögum sínum í Stone Temple Pilots. Stutt er síðan hann var rekinn úr rokksveitinni fyrir að hafa flutt plötu hennar, Core, á sólótónleikaferðalagi.
Sveitin höfðaði einnig mál gegn honum fyrir uppátækið en núna hefur Weiland gert hið sama og segir fyrrverandi félaga sína ekki hafa haft rétt á því að reka hann.
„Hvernig rekurðu mann úr hljómsveit sem hann stofnaði, nefndi, söng öll lögin fyrir, samdi textana fyrir og var andlit fyrir í tuttugu ár?“ sagði Weiland við Rolling Stone.
Stone Temple Pilots hefur ráðið Chester Bennington úr Linkin Park í stað hans.