Íslenski boltinn

Stóra nærbuxnamálið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Baldur í undirbuxunum
Baldur í undirbuxunum Myn/Stefán Karlasson
Baldur Sigurðsson, miðjumaður KR, fékk gult spjald í fyrri hálfleik í útileik KR gegn Glentoran á Norður-Írlandi í undankeppni Evrópudeildarinnar á fimmtudagskvöldið.

„Meinarðu stóra nærbuxnamálið?" spurði laufléttur Baldur Sigurðsson þegar blaðamaður spurði hann út í áminninguna í Belfast. Baldur spilar ávalt í undirbuxum undir stuttbuxum sínum og var Evrópuleikurinn engin undantekning.

„Þær eru svartar öðru megin og gráar hinum megin. Ég sný þeim bara við þegar ég spila í hvítu stuttbuxunum," segir Baldur. Allajafna spila KR-ingar í svörtum stuttbuxum við sína hefðbundnu svörtu og hvítu treyju. Með appelsínugulri varatreyju nota KR-ingar hins vegar hvítar stuttbuxur. Bannað er að spila í undirbuxum í öðruvísi lit en stuttbuxurnar.

„Dómararnir komu inn í klefa fyrir leik og skoðuðu okkur. Takkaskó og annað," segir Baldur. Sömu sögu hafi verið að segja í göngunum fyrir leik þegar nokkrir leikmenn KR voru sendir aftur inn í klefa til þess að laga sokka sína. Mývetningurinn fékk hins vegar engar athugasemdir.

Baldur í Evrópuleik gegn HJK Helsinki í fyrra í svörtum undirbuxum.Mynd/Daníel
„Á 30. mínútu er ég svo tæklaður og dómarinn gefur andstæðingnum gult spjald. Ég stend upp, meiði mig aðeins og er að komast af stað þegar dómarinn flautar agalega hátt," segir Baldur. Skipti þá engum toga. Baldur fékk áminningu og var gert að fara af velli og afklæðast buxunum.

„Þetta var fáránlegt," segir Baldur ósáttur. Að hans sögn hafa dómarar á Íslandi sagt honum að þótt undirbuxurnar væru gráar væri það innan marka. Baldur er sérstaklega svekktur við spjaldið enda er hann nú aðeins einu spjaldi frá leikbanni.

„Við vorum komnir í 1-0 og lítið að frétta hjá þeim á þessum tímapunkti," segir Baldur. Hann ætlar ekki að taka neina áhættu hvað undirbuxurnar varðar í Evrópuleikjunum gegn Standard Liege.

„Ég ætla að fara til dómarans fyrir leik og biðja hann leyfis."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×