Sigríður Lára Garðarsdóttir, miðjumaður ÍBV í Pepsi-deild kvenna, verður frá út tímabilið. Sigríður Lára er með slitið krossband.
Frá þessu er greint á vefsíðunni ÍBVsport.is þar sem fram kemur að Sigríður Lára verði að öllum líkindum frá keppni í sex til átta mánuði.
Eyjakonur hafa verið afar óheppnar hvað meiðsli varðar og er Sigríður Lára enn einn leikmaðurinn sem heltist úr lestini. Kristín Erna Sigurlásdóttir og Svava Tara Ólafsdóttir missa til að mynda af öllu tímabilinu vegna meiðsla. Þá missti liðið nokkra sterka leikmenn í vetur en hefur, þrátt fyrir allt, gengið nokkuð vel í sumar.
ÍBV situr í öðru sæti deildarinnar sem stendur með 19 stig. Breiðablik hefur jafnmörg stig en lakari markatölu. Stjarnan hefur átta stiga forskot á toppnum.

