Veiði

Glimrandi laxveiði á Vesturlandi

Jakob Bjarnar skrifar
Bjarni Júlíusson með lax úr Norðurá sem trónir efst á lista yfir aflahæstu laxveiðiárnar.
Bjarni Júlíusson með lax úr Norðurá sem trónir efst á lista yfir aflahæstu laxveiðiárnar.
Veiðimenn eru í sjöunda himni vegna laxveiðisumarsins eftir hörmungarsumar í fyrra, að sögn Bjarna Júlíussonar, formanns Stangveiðifélags Reykjavíkur. Flestir laxar hafa veiðst í Norðurá í Borgarfirði. Þar eru 2.285 laxar komnir á land. Þetta er mikill viðsnúningur frá í fyrra en þá veiddust einungis 953 laxar.

Vesturlandið oft fyrr til

Bjarni var kátur þegar Bylgjan náði tali af honum í morgun og spurði hvort þetta hafi ekki komið á óvart? "Jú, auðvitað kemur þetta á óvart. Við áttum ekki von á eins góðu sumri og raun ber vitni. Eftir hörmungarárið í fyrra. En, það var strax ljóst á fyrstu dögum að stóri laxinn var að skila sér í talsverðum mæli. Þegar stóri straumurinn brestur á uppúr miðjum júní þá hellast smálaxagöngurnar inn. Þá vissum við að Vesturlandið og Suð-Vesturlandið yrði í mjög góðu lagi. Og það hefur aldreilis sýnt sig. Norðuráin í svakalega góðu róli og aðrar ár í Borgarfirðinum raunar líka; Þverá, Kjarrá, Grímsá ... Langá er mjög góð. Það hefur gengið vel í Hítaránni þannig að það eru bara góðar fréttir úr laxánni núna í sumar."

Bjarni segir að Vesturlandið sé oft fyrr til en önnur landsvæði í laxveiði. Sérstaklega Borfirsku árnar. "Við vitum að Vesturlandið mun standa sig afburðavel. Það er það langt liðið á sumarið að þetta vitum við. Þetta verður eitt besta veiðiárið frá upphafi í Norðurá þó sennilega verði metið ekki slegið. Fyrir norðan hefur þetta farið hægar af stað. Besta veiðin á Norður- og Norð-Austurlandi er gjarnan í ágústbyrjun og um miðjan ágúst. Þar er þetta ekki byrjað."

Mun bresta á með veiði víðar

Athygli vekur að Ytri-Rangá er í sjötta sæti listans yfir aflamestu árnar en þar hafa veiðst 847 laxar í sumar. Þar hafa aflatölur verið býsna háar undanfarin ár en í fyrra veiddust þar 4.353, sem eru þó bara smámunir miðað við metárið 2008 þegar þar veiddust rúmlega fjórtán þúsund laxar.

"Ég hef á tilfinningunni að báðar Rangárnar, Eystri og Ytri, eru að byrja heldur hægar kannski en stundum. En, samt, það er svo stutt liðið á sumarið þar, í Rangám er veitt fram í október, þannig að ég er nokkuð viss um að þær eiga eftir að skila sínu. Og ef við förum aðeins vestar, uppí Laxá í Dölum, sem því miður hefur verið ákaflega döpur undanfarin tvö ár, en þar er staðan gerbreytt. Hún er komin yfir 200 laxa! Í bestu árunum, þegar hún var að skila 12 til 13 hundruð löxum, þá var hún gjarnan í 200 til 250 fiskum um mánaðarmótin júlí-ágúst. Þannig að sumar ár byrja hægar og svo brestur þetta á þar."

Gera má góð kaup

Þegar aflafréttir tóku að berast tóku íslenskir veiðimenn aðeins við sér og ódýrari leyfi tóku að seljast, nærri uppseld. En það gengur verr að koma dýru veiðileyfunum út. Það er bara svoleiðis, að sögn Bjarna. En, menn geta gert góð kaup.

"Jú, eins og við sögðum í upphafi sumars var sala á laxveiðileyfum fyrir sumarið í sumar afskaplega dræm. Og það var talsvert til af leyfum. Okkur taldist til að það væri á annan milljarð af óseldum laxveiðileyfum þegar veiðin hófst í júni. Vissulega eru menn að reyna að selja þetta, með einhverjum afslætti. Og menn geta gert góð kaup, í góðu verði og góðri vöru, því ár eru barmafullar af laxi."

SVFR uppúr öldudal

Ekkert skortir á að Bjarni sé góður talsmaður laxveiðinnar og síns félags. Stangveiðifélag Reykjavíkur er með Norðurá, Hítará, Langá og margar af þessum stóru og flottu ám. "Víðast hvar hefur gengið prýðilega. Glúfrá, sem fellur úr Langá í Norðurá, þar er ákaflega góð staða. Mér er sagt, það er laxateljari neðarlega í ánni og það eru yfir 700 laxar sem hafa gengið í gegnum teljarann í sumar."

Stangveiðifélag Reykjavíkur hefur verið í fjárhagskröggum. "Við erum búin að ganga í gegnum mikinn öldudal síðustu tvö til þrjú árin. Við erum vongóð um að úr rætist. Miðað við þessa veiði í sumar hef ég fulla trú á að veiðileyfasala taki við sér næsta sumar. Og þá erum við bara í góðum málum."










×