Japanski milljarðamæringurinn og fyrrverandi forstjóri Nintendo, Hiroshi Yamauchi, lést í dag, 85 ára að aldri.
Hann stjórnaði fyrirtækinu í 53 ár, frá 1949 til 2002, en afi hans stofnaði það árið 1889. Undir stjórn Yamauchi varð Nintendo að því tölvuleikjaveldi sem það er, en meðal afreka Yamauchi var framleiðsla Game Boy-leikjatölvunnar vinsælu, auk tölvuleikjanna Donkey Kong og Super Mario Bros.
Hann steig til hliðar sem forstjóri fyrir rúmum áratug vegna hrakandi heilsufars en hélt áfram störfum sem ráðgjafi.
