Stjarnan fullkomnaði tímabilið í Pepsi-deild kvenna í dag þegar liðið bar sigur úr býtum gegn Blikum, 6-0, á Samsung-vellinum í Garðabæ. Liðið vann alla leiki tímabilsins og hafnaði því í langefsta sæti deildarinnar með 54 stig.
Í spilaranum að ofan má sjá mörkin auk helstu færa úr leiknum.
Einsdæmi í tíu liða deild í knattspyrnusögunni á Íslandi. Heimastúlkur tóku á móti Íslandsmeistaratitlinum í Garðabæ í dag. Vísir óskar liðinu innilega tilhamingju með þennan merka áfanga.
Leikurinn hófst heldur betur vel fyrir heimastúlkur en Elva Friðjónsdóttir skoraði á þriðju mínútu leiksins og gaf tóninn fyrir heimamenn.
Danka Podovac gerði annað mark Stjörnunnar á 18. mínútu leiksins og heimamenn komnar með fín tök á leiknum. Harpa Þorsteinsdóttir gerði síðan þriðja mark leiksins og jafnframt 27. mark hennar á tímabilinu með Stjörnunni.
Staðan var 3-0 í hálfleik og útlit fyrir fullkomið tímabil hjá Stjörnunni.
Vinurinn var mikill í síðari hálfleiknum en Danka Podovac skoraði sitt annað mark í leiknum tuttugu mínútum fyrir leikslok og síðan skoraði Harpa Þorsteinsdóttir sitt 28. mark í Pepsi-deildinni þremur mínútum síðar.
Kristrún Kristjánsdóttir skoraði síðan sjötta mark Stjörnunnar rúmlega tíu mínútum fyrir leikslok. Algjör sýning á Samsung-vellinum og Íslandsmeistararnir að rúlla yfir Bikarmeistarana.
Niðurstaðan því sex mörk Stjörnunnar gegn engu marki Blika og fullkomið tímabil Stjörnunnar að veruleika. Liðið tapaði ekki stigi í sumar.
