Golf

Loksins sigur á ný hjá Lynn

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Englendingurinn David Lynn fór með sigur af hólmi á Pourtugal Masters mótinu sem lauk á Evrópumótaröðinni í golfi í gær í Portúgal. Þessi 39 ára kylfingur lék best allra og lauk leik samtals á 18 höggum undir pari. Lynn lék lokahringinn á 63 höggum.

Justin Walters frá Suður-Afríku varð annar, einu höggi á eftir Lynn. Walters átti erfitt með að halda aftur af tilfinningum sínum í lok hrings en móðir hans féll frá fyrir tveimur vikum. Með árangri sínum tryggði Walters sér áframhaldandi keppnisrétt á Evrópumótaröðinni á næstu leiktíð.

Þetta er aðeins annar sigurinn hjá Lynn á Evrópumótaröðinni sem hefur leikið í nærri 400 mótum á mótaröðinni. Síðasti sigur hans kom á KLM Open mótinu árið 2004.

„Ég datt í stuð á fyrri níu holunum og setti niður nánast hvert einasta pútt. Ég hélt áfram á seinni níu holunum. Ég er virkilega sáttur með að hafa unnið loksins aftur,“ segir Lynn sem einnig leikur á PGA-mótaröðinni í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×