Handbolti

Enn óvissa um meiðsli Steinunnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Steinunn Björnsdóttir, til vinstri, í leik með Fram.
Steinunn Björnsdóttir, til vinstri, í leik með Fram. Mynd/Ernir
Enn er óvíst hversu lengi Steinunn Björnsdóttir, leikmaður Fram, verður frá keppni en óttast er að hún spili ekki aftur fyrr en eftir áramót.

Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Fram, sagði við Vísi eftir leik liðsins gegn Val í kvöld að enn væri beðið eftir nánari greiningu á meiðslum hennar.

Steinunn meiddist í leik íslenska landsliðsins gegn Slóvakíu í undankeppni EM 2014 á dögunum.

„Hún bíður eftir því að komast að í ómskoðun en þær skoðanir sem hún hefur hingað til farið í hafa ekki gefið nægilega góð svör,“ sagði Halldór Jóhann.

Hann segir mögulegt að það hafi flísast upp úr hælbeininu en Steinunn var á hækjum á íþróttahúsinu í Safamýri í kvöld.

„Þetta gæti líka verið slæmt beinmar. Þetta verður bara að koma í ljós. Þangað til er ómögulegt að segja hversu lengi hún verður frá. En hún er á hækjum og þetta lítur því ekki vel út.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×