Næsta norræna velferðarstjórn Ólafur Þ. Stephensen skrifar 2. febrúar 2013 06:00 Tímaritið virta og víðlesna The Economist birtir í nýjasta tölublaði sínu heilmikla úttekt á nágrannaríkjum okkar fjórum á Norðurlöndunum. Ísland er ekki með í úttektinni. Á forsíðunni er birt mynd af úfnum víkingi með fyrirsögninni „Næsta súpermódel". Þar er augljóslega vísað í norræna módelið, sem The Economist færir rök fyrir að hafi skilað norrænu ríkjunum í fremstu röð og mörg önnur ríki muni horfa til í vaxandi mæli. Eru þetta ekki frábær tíðindi fyrir ríkisstjórnina, sem verður tíðrætt um norræna velferðarsamfélagið og lýsti því yfir í upphafi ferils síns að hún hygðist horfa sérstaklega til grannríkjanna við breytingar sínar á íslenzku samfélagi? Það verður að teljast hæpið. The Economist lýsir nefnilega allt öðru norrænu módeli en því sem ríkisstjórn Íslands vinnur eftir. Leiðarahöfundur blaðsins gerir grín að bæði frönskum vinstrimönnum sem láta sig dreyma um hina sósíalísku Skandinavíu og bandarískum íhaldsmönnum sem saka Obama forseta um að ætla að breyta Bandaríkjunum í Svíþjóð. Hvorugur hópurinn fylgist með tímanum, segir blaðið. Á áttunda og níunda áratugnum voru norrænu ríkin vissulega ríki hárra skatta og ríkisútgjalda, en það var módel sem virkaði ekki. Norðurlandaríkin hafa breytt um kúrs – aðallega til hægri. The Economist verður þannig tíðrætt um alls konar hugmyndir sem hafa verið býsna fjarri þeirri „norrænu velferðarstjórn" sem hefur setið hér á landi síðustu fjögur ár. Þar á meðal eru umbætur í velferðarþjónustunni sem byggjast á því að innleiða einkarekstur og samkeppni, til dæmis í rekstri sjúkrahúsa og grunnskóla. „Svo lengi sem almannaþjónustan virkar er þeim sama hver lætur hana í té," segir The Economist. Alveg augljóst að blaðamaðurinn spurði engan í VG eða Samfylkingunni. Blaðinu finnst líka frábært hvað Norðurlandabúar eru hallir undir frjálsa verzlun og nefnir að sænsk stjórnvöld reyndu ekki að koma í veg fyrir að Saab færi á hausinn og þeim er sama þótt kínverskir fjárfestar hafi keypt Volvo. Aftur er augljóst að Ísland var ekki með í úttektinni. Norræna módelið, eins og því er lýst í The Economist, er vissulega frábært módel, nokkuð frjálst af kreddum bæði til vinstri og hægri. Það byggist á öflugu atvinnulífi, sem stjórnvöld leggja sig fram um að örva og skapa samkeppnishæf skilyrði. Öflug einkafyrirtæki sem eru ekki skattpínd úr hófi fram standa undir velferðarkerfi sem er sjálfbært til lengri tíma og þar af leiðandi ekki of dýrt. Markaðsöflin eru nýtt í þágu almannaþjónustu og gera opinbera geirann skilvirkari. Stjórnsýslan er opin og skilvirk og stjórnmálamenn leggja sig fram um að ná samstöðu um stór mál. Þetta er flott prógramm, sem stjórnmálaflokkar gætu lagt fyrir kjósendur. Það eru hins vegar litlar líkur á að núverandi stjórnarflokkar geri það; til þess eru þeir of fastir í gamla norræna módelinu sem hefur gengið sér til húðar. Sú ríkisstjórn sem tileinkar sér mikið af þeim umbótum sem nágrannaríkin hafa ráðizt í gæti hins vegar staðið undir nafni sem norræn velferðarstjórn. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Ólafur Stephensen Skoðanir Mest lesið Er píparinn þinn skattsvikari? Kristinn Karl Brynjarsson Skoðun Kæra unga móðir Jóna Þórey Pétursdóttir Skoðun Kosningar og ,ehf gatið‘ Róbert Farestveit Skoðun Verði þitt val, svo á jörðu sem á himni Halldóra Lillý Jóhannsdóttir Skoðun Halldór 9.11.2024 Halldór Grípum tækifærin og sköpum bjartari framtíð Ísak Leon Júlíusson Skoðun Það sem má alls ekki tala um... Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Rekin út fyrir að vera kennari Álfhildur Leifsdóttir Skoðun Frelsi til að búa þar sem þú vilt Sæunn Gísladóttir Skoðun Öryggis annarra vegna… Ingunn Björnsdóttir Skoðun
Tímaritið virta og víðlesna The Economist birtir í nýjasta tölublaði sínu heilmikla úttekt á nágrannaríkjum okkar fjórum á Norðurlöndunum. Ísland er ekki með í úttektinni. Á forsíðunni er birt mynd af úfnum víkingi með fyrirsögninni „Næsta súpermódel". Þar er augljóslega vísað í norræna módelið, sem The Economist færir rök fyrir að hafi skilað norrænu ríkjunum í fremstu röð og mörg önnur ríki muni horfa til í vaxandi mæli. Eru þetta ekki frábær tíðindi fyrir ríkisstjórnina, sem verður tíðrætt um norræna velferðarsamfélagið og lýsti því yfir í upphafi ferils síns að hún hygðist horfa sérstaklega til grannríkjanna við breytingar sínar á íslenzku samfélagi? Það verður að teljast hæpið. The Economist lýsir nefnilega allt öðru norrænu módeli en því sem ríkisstjórn Íslands vinnur eftir. Leiðarahöfundur blaðsins gerir grín að bæði frönskum vinstrimönnum sem láta sig dreyma um hina sósíalísku Skandinavíu og bandarískum íhaldsmönnum sem saka Obama forseta um að ætla að breyta Bandaríkjunum í Svíþjóð. Hvorugur hópurinn fylgist með tímanum, segir blaðið. Á áttunda og níunda áratugnum voru norrænu ríkin vissulega ríki hárra skatta og ríkisútgjalda, en það var módel sem virkaði ekki. Norðurlandaríkin hafa breytt um kúrs – aðallega til hægri. The Economist verður þannig tíðrætt um alls konar hugmyndir sem hafa verið býsna fjarri þeirri „norrænu velferðarstjórn" sem hefur setið hér á landi síðustu fjögur ár. Þar á meðal eru umbætur í velferðarþjónustunni sem byggjast á því að innleiða einkarekstur og samkeppni, til dæmis í rekstri sjúkrahúsa og grunnskóla. „Svo lengi sem almannaþjónustan virkar er þeim sama hver lætur hana í té," segir The Economist. Alveg augljóst að blaðamaðurinn spurði engan í VG eða Samfylkingunni. Blaðinu finnst líka frábært hvað Norðurlandabúar eru hallir undir frjálsa verzlun og nefnir að sænsk stjórnvöld reyndu ekki að koma í veg fyrir að Saab færi á hausinn og þeim er sama þótt kínverskir fjárfestar hafi keypt Volvo. Aftur er augljóst að Ísland var ekki með í úttektinni. Norræna módelið, eins og því er lýst í The Economist, er vissulega frábært módel, nokkuð frjálst af kreddum bæði til vinstri og hægri. Það byggist á öflugu atvinnulífi, sem stjórnvöld leggja sig fram um að örva og skapa samkeppnishæf skilyrði. Öflug einkafyrirtæki sem eru ekki skattpínd úr hófi fram standa undir velferðarkerfi sem er sjálfbært til lengri tíma og þar af leiðandi ekki of dýrt. Markaðsöflin eru nýtt í þágu almannaþjónustu og gera opinbera geirann skilvirkari. Stjórnsýslan er opin og skilvirk og stjórnmálamenn leggja sig fram um að ná samstöðu um stór mál. Þetta er flott prógramm, sem stjórnmálaflokkar gætu lagt fyrir kjósendur. Það eru hins vegar litlar líkur á að núverandi stjórnarflokkar geri það; til þess eru þeir of fastir í gamla norræna módelinu sem hefur gengið sér til húðar. Sú ríkisstjórn sem tileinkar sér mikið af þeim umbótum sem nágrannaríkin hafa ráðizt í gæti hins vegar staðið undir nafni sem norræn velferðarstjórn.