Mamma og afbitna eyrað 27. febrúar 2013 06:00 Fyrir svona fimmtán árum fékk ég áhuga á hnefaleikum – á þeim tíma sem beinar útsendingar hófust frá þessari vinsælu íþrótt í fyrsta skipti. Úr varð nýtt æði á Íslandi. Ég, eins og tugþúsundir annarra, sat við skjáinn og taldi mig hafa fundið nýjan sannleika. Ég lagðist í trúboð – vildi kveða niður gagnrýnisraddir sem voru margar. Það má reyndar segja að fleiri hafi fyllt hóp gagnrýnenda en þeirra sem litu æðið jákvæðum augum, eins og kom greinilega fram í samfélagsumræðunni á þeim tíma. Móðir mín sá ekkert jákvætt við hnefaleika. Hún sagði það sprottið af blóðþorsta að horfa á fullorðna menn berja hver aðra sundur og saman. Ég hélt nú ekki. Íþróttin væri þvert á móti ein sú fegursta og göfugasta í heimi. Þetta taldi ég mig geta sannað; ef hún vildi læra. Móðir mín er keppnismanneskja og hún samþykkti að halda áfram rökræðunum á meðan horft væri á hnefaleikabardaga. Þetta var árið 1997 og fram undan var endurtekinn bardagi um heimsmeistaratitilinn í þungavigt á milli Mike Tyson og Evander Holyfield. Fullkomið. Ég lagði mikið í kvöldið; fékk lánaða góða stóla, keypti bjór og aðrar nauðsynjar. Strax í byrjun afþakkaði mamma kalt ölið á þeim forsendum að hún þyrfti að klára hælana á nokkrum ullarsokkapörum sem hún hafði með sér. Ég drakk því bjórinn sjálfur og hélt langan fyrirlestur um sögu hnefaleika. Mamma sat við hliðina á mér, prjónaði og kinkaði kolli öðru hvoru. Þá auðvitað, eins og flestir vita, ákvað Tyson að gera tilraun til að éta andstæðing sinn, og til að gera langa sögu stutta þá var eyrað á Holyfield ekki lent í gólfinu þegar mamma var staðin upp – augnatillitið sem ég fékk þurfti engra skýringa við. Á þeim tíma sá ég mína sæng upp reidda og lét af frekari tilraunum til þess að sannfæra gömlu konuna – eða ákvað öllu heldur að leita færis síðar. Svo birtist Gunnar Nelson eins og frelsandi engill. Nýtt tækifæri gafst eftir allan þennan tíma. Reyndar önnur íþrótt og harkalegri, en samt. Svo fékk ég bakþanka og hætti við – veit reyndar alveg hverju hún hefði svarað hefði ég lagt í aðra krossferð. „Svavar minn. Það breytir engu þótt það sé Íslendingur sem er að ná árangri. Íþróttin sú arna verður ekkert fallegri við það." Mamma hefur kannski töluvert til síns máls. Þó hún hafi reyndar ekkert sagt. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Svavar Hávarðsson Mest lesið Óvelkomnar alls staðar Kristín Davíðsdóttir Skoðun Halldór 13.09.2025 Halldór Ég er eins og ég er – um heilbrigðisþjónustu við trans fólk Alma D. Möller Skoðun Við elskum pizzur Herdís Magna Gunnarsdóttir Skoðun Furðuleg meðvirkni með fúskurum Jón Kaldal Skoðun Hagsmunir sveitanna í vasa heildsala Anton Guðmundsson Skoðun Verið að vinna sér í haginn Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Grafið undan grunnstoð samfélagsins Skoðun Hæfniviðmið eða tölulegar einkunnir, hvað segir okkur meira um nám? Bryngeir Valdimarsson Skoðun Gætum eggja og forðumst náttúruleysi! Pétur Heimisson Skoðun
Fyrir svona fimmtán árum fékk ég áhuga á hnefaleikum – á þeim tíma sem beinar útsendingar hófust frá þessari vinsælu íþrótt í fyrsta skipti. Úr varð nýtt æði á Íslandi. Ég, eins og tugþúsundir annarra, sat við skjáinn og taldi mig hafa fundið nýjan sannleika. Ég lagðist í trúboð – vildi kveða niður gagnrýnisraddir sem voru margar. Það má reyndar segja að fleiri hafi fyllt hóp gagnrýnenda en þeirra sem litu æðið jákvæðum augum, eins og kom greinilega fram í samfélagsumræðunni á þeim tíma. Móðir mín sá ekkert jákvætt við hnefaleika. Hún sagði það sprottið af blóðþorsta að horfa á fullorðna menn berja hver aðra sundur og saman. Ég hélt nú ekki. Íþróttin væri þvert á móti ein sú fegursta og göfugasta í heimi. Þetta taldi ég mig geta sannað; ef hún vildi læra. Móðir mín er keppnismanneskja og hún samþykkti að halda áfram rökræðunum á meðan horft væri á hnefaleikabardaga. Þetta var árið 1997 og fram undan var endurtekinn bardagi um heimsmeistaratitilinn í þungavigt á milli Mike Tyson og Evander Holyfield. Fullkomið. Ég lagði mikið í kvöldið; fékk lánaða góða stóla, keypti bjór og aðrar nauðsynjar. Strax í byrjun afþakkaði mamma kalt ölið á þeim forsendum að hún þyrfti að klára hælana á nokkrum ullarsokkapörum sem hún hafði með sér. Ég drakk því bjórinn sjálfur og hélt langan fyrirlestur um sögu hnefaleika. Mamma sat við hliðina á mér, prjónaði og kinkaði kolli öðru hvoru. Þá auðvitað, eins og flestir vita, ákvað Tyson að gera tilraun til að éta andstæðing sinn, og til að gera langa sögu stutta þá var eyrað á Holyfield ekki lent í gólfinu þegar mamma var staðin upp – augnatillitið sem ég fékk þurfti engra skýringa við. Á þeim tíma sá ég mína sæng upp reidda og lét af frekari tilraunum til þess að sannfæra gömlu konuna – eða ákvað öllu heldur að leita færis síðar. Svo birtist Gunnar Nelson eins og frelsandi engill. Nýtt tækifæri gafst eftir allan þennan tíma. Reyndar önnur íþrótt og harkalegri, en samt. Svo fékk ég bakþanka og hætti við – veit reyndar alveg hverju hún hefði svarað hefði ég lagt í aðra krossferð. „Svavar minn. Það breytir engu þótt það sé Íslendingur sem er að ná árangri. Íþróttin sú arna verður ekkert fallegri við það." Mamma hefur kannski töluvert til síns máls. Þó hún hafi reyndar ekkert sagt.