Skáldsaga Hallgríms Helgasonar Konan við 1000° fær afbragðsdóma hjá dönskum gagnrýnendum en bókin kom nýverið út þar í landi í þýðingu Kims Lembek.
Gagnrýnandi Berlingske tidende, Jørgen Johansen, gefur henni fimm stjörnur af sex. Sömu sögu er að segja af Sebastian Hansen á Extra Bladet, hann gefur skáldsögunni fimm stjörnur af sex. Bókin fær fjögur hjörtu af sex hjá May Schack í Politiken og Marianne Koch hjá Fyens Stiftstidende gefur henni fimm stjörnur af sex. „Haldiði kjafti hvað þetta er æðisleg skáldævisaga," segir Marie Louise Wedel Bruun í Elle, sem velur Konuna við 1000° sem bók mánaðarins.
Þessir gagnrýnendur og aðrir sem hafa fjallað um bókina eru sammála um að Hallgrímur væri vel að Bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs kominn en Konan við 1000° er framlag Íslands til þeirra ásamt bók Guðmundar Andra Thorssonar, Valeyrarvalsinum. Bókmenntaverðlaunin verða veitt á næstunni.
Hallgrímur Helgason ausinn lofi
