Tónlist

Samaris samdi við One Little Indian

Freyr Bjarnason skrifar
Tríóið Samaris hefur gert útgáfusamning við One Little Indian.
Tríóið Samaris hefur gert útgáfusamning við One Little Indian. Fréttablaðið/Valli
Tríóið Samaris hefur samið við breska útgáfufyrirtækið One Little Indian. Samningurinn felur í sér útgáfu á EP-plötum og tveimur stórum plötum með möguleika á þeirri þriðju. Sú fyrsta er væntanleg í haust.

Aðspurð segir klarinettuleikarinn Áslaug Rún Magnúsdóttir að samningurinn hafi verið í nokkurn tíma í bígerð. „Stuttu eftir Iceland Airwaves [síðasta haust] byrjuðum við að fá tölvupóst frá þeim og fórum á skype-fund,“ segir hún. Útsendari fyrirtækisins hafði þá heyrt hljómsveitina spila á veitingastaðnum Laundromat á sunnudagseftirmiðdeginum og heillast upp úr skónum.

„Þetta er mjög fyndið því við erum búin að gefa út tvær EP-plötur upp á eigin spýur og nenntum ekki að gera líka stóra plötu sjálf. Við vorum búin að ímynda okkur hvaða plötufyrirtæki við værum til í að vinna með og hugsuðum að það væri gaman að vera hjá One Little Indian í London. Svo kemur bara þessi tölvupóstur,“ segir hún. „Þetta var bara „kúl“ og alveg „meant to be“.“ Samaris hefur einnig samið við útgáfuna 12 Tóna sem mun annast þeirra mál hér á landi.

Upptökur á stóru plötunni eru hafnar og hafa þær farið fram heima hjá Oculus, eða Friðfinni Sigurðssyni. Hann hefur áður aðstoðað Samaris við lagið Stofnar falla. „Það er alveg frábært því hann er fáránlega klár,“ segir Áslaug um upptökustjórn Oculus. Hún segir ekki hafa komið til greina að taka plötuna upp erlendis. „Við erum í skólanum og okkur fannst það algjör óþarfi að fara út. Við þurfum ekkert stórt stúdíó.“

Með samningnum við One Little Indian bætist rafpoppsveitin Samaris í hóp með Björk, Ólöfu Arnalds og Ásgeiri Trausta sem öll eru þar á samningi. „Þetta er bara flottur hópur. Við hittum hann [útsendara One Little Indian] um jólin og þá var hann að koma með punkta um Sykurmolana og Björk til að reyna að veiða okkur meira og það virkaði alveg.“

Áslaug Rún er nýútskrifuð úr MH og er núna í tónlistarnámi í Reykjavík. Hún á ekki von á því að hætta í skóla til að einbeita sér að tónlistinni. „Þetta verkefni byrjaði sem djók og vatt miklu meira upp á sig en það átti að gera, sem er bara jákvætt. Jófríður er í annarri hljómsveit [Pascal Pinon] og við erum báðar í tónlistarnámi, þannig að ég veit ekki hversu mikið við erum að fara að hætta í skóla.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×