Kylfingar frá Skandinavíu hafa aldrei sigrað í einu af risamótunum fjórum sem haldin eru árlega.
Daninn Thomas Bjorn hefur nokkrum sinnum verið nálægt því en hann hefur þrisvar sinnum lent í öðru sæti í risamóti, síðast árið 2005 á PGA-meistaramótinu. Jesper Parnevik varð einnig tvisvar í öðru sæti á Opna breska á miðjum 10. áratugnum.
Svíinn Peter Hanson varð í þriðja sæti á Masters-mótinu á síðasta ári og hann er einn þeirra sem gæti orðið fyrsti skandínavíski kylfingurinn til að sigra á risamóti. Daninn Thorbjorn Olesen og Svíinn Henrik Stenson þykja einnig líklegir. Þorsteinn Hallgrímsson hefur mikla trú á Stenson fyrir Masters í ár.
„Stenson hefur verið að leika mjög vel í síðustu tveimur mótum. Hann varð í öðru sæti í Houston fyrir tveimur vikum og í áttunda sæti á Bay Hill vikuna þar á undan. Við áttum gott viðtal við hann á mánudag og sagði við okkur að hann væri mjög bjartsýnn á góðan árangur í mótinu,“ segir Þorsteinn.
„Stenson er fullur sjálfstrausts eftir gott gengi að undanförnu og honum hefur gengið vel á Augusta National. Hann sagði við okkur að hann væri með mikið sjálfstraust í vippum og púttum um þessar mundir og það skiptir gríðarlega miklu máli á þessum velli. Það verður áhugavert að fylgjast með honum, sem og öðrum kylfingum frá Skandinavíu í þessu móti.“
Bein útsending frá fyrsta keppnisdegi á Masters hefst á Stöð 2 Sport & HD klukkan 19 í kvöld.

