Handbolti

Kvaddi með langþráðu gulli

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Mynd/Vilhelm
Fram varð Íslandsmeistari í N1 deild kvenna með því að leggja Stjörnuna að velli, 19-16, í oddaleik liðanna í úrslitum í gær. Fram vann þar sinn 20. Íslandsmeistaratitil og þann fyrsta frá árinu 1990.

Stella Sigurðardóttir skoraði átta af 19 mörkum Fram í þessum síðasta leik sínum fyrir félagið í bili að minnsta kosti, en hún gengur til liðs við danska liðið SönderjyskE í sumar.

„Þetta er frábært. Ég á ekki orð yfir þennan sigur í dag. Liðsheildin og vörnin var frábær í dag og við algjörlega sýndum að við erum bestar á landinu í dag,“ sagði Stella eftir leikinn í gær.

„Það kveikti í okkur að Stjarnan var farin að tala um silfurhefð hjá okkur og að þær ætluðu að nýta sér það til góðs. Það er engin silfurhefð hér. Við ætluðum okkur gullið. Í fyrra fór þetta í fimmta leik og það gat fallið hvoru megin sem er. Við vissum að við gætum unnið þetta. Okkur fannst við ekki hafa sýnt okkar rétta andlit í heimaleikjunum og við ætluðum að koma brjálaðar í þetta og sýna að við erum miklu betra lið.

Spennustigið hefur verið hátt í heimaleikjunum og margir áhorfendur. Við vissum að við gætum miklu betur og við komum vel innstilltar í dag. Við nýttum áhorfendurna sem áttunda manninn á vellinum í dag,“ sagði Stella.

Fram vann sinn 19. Íslandsmeistaratitil 27. mars 1990. Þremur dögum síðar, 30. mars, fæddist Stella.

„Fram vann síðast á fæðingarári mínu og það er mjög gaman að vinna titilinn áður en ég fer. Ég vann allt sem hægt var að vinna í yngri flokkunum. Ég byrjaði í meistaraflokki 16 ára og er búin að bíða eftir þessum stóra titli og loksins tókst það áður en ég flýg af landi brott,“ sagði Stella, en sami kjarni leikmanna hefur verið í Fram fá því að Stella steig sín fyrstu skref í meistaraflokki.

„Við höfum spilað svo lengi saman, þessi kjarni í liðinu. Við erum allar með Fram-hjarta. Mér finnst það skipta miklu máli. Þetta er ekki aðkeypt lið. Við vorum mjög ungar fyrir fimm árum þegar við vorum samt að slást um titilinn. Ég er ánægð með að við héldum allar hópinn og náðum loksins að vinna gullið.

„Fyrsta árið lendum við í fjórða sæti og sláum út Hauka sem höfnuðu í fyrsta með því að vinna þær 2-0 og lentum á móti Stjörnunni. Við vorum litla liðið þá, ungir kjúklingar, en við höfum þroskast mikið sem leikmenn og sem liðsheild á þessum tíma,“ sagði Stella að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×