Golf

Topparnir saman í ráshóp á US Open

Þorgils Jónsson skrifar
Tiger og Rory verða í ráshóp með Adam Scott fyrstu tvo hringina á US Open sem hefst í dag.
Tiger og Rory verða í ráshóp með Adam Scott fyrstu tvo hringina á US Open sem hefst í dag. Nordicphotos/AFP

Þrír efstu menn heimslistans, þeir Tiger Woods, Rory McIlroy og Adam Scott, verða saman í ráshóp á fyrstu tveimur hringjunum á Opna bandaríska meistaramótinu sem hefst í dag.

Mótið er haldið á hinum fornfræga Merion-velli í Pennsylvaníu. Fyrir fram beinast flestra augu að sjálfsögðu að Tiger Woods, sem hefur ekki unnið risamót í rétt fimm ár, eftir magnaðan sigur á US Open á Torrey Pines. Hann hafði þá verið nær alráður í tæpan áratug þar sem hann sigraði á þrettán af 27 risamótum, frá PGA-meistaramótinu 1999. Þar áður hafði hann sigrað á Masters árið 1997. Tiger er því enn að elta met Jacks Nicklaus yfir flesta sigra á risamótum, með fjórtán á móti átján sigrum Nicklaus.

McIlroy og Scott eru líka með risatitla á sínum ferilsskrám. Scott varð hlutskarpastur á Masters nú í vor og Rory sigraði á US Open árið 2011 og PGA-meistaramótinu í fyrra.

Þó er hætt við því að veðrið verði senuþjófurinn því að miklar rigningar hafa verið á vellinum og við hann síðustu daga. Í dag er svo spáð gríðarlegu úrhelli sem gæti sett allt úr skorðum. Völlurinn ætti þó almennt séð að henta best þeim kylfingum sem eru nákvæmastir í aðgerðum sínum. Völlurinn er stuttur en karginn er varasamur og flatirnar illviðráðanlegar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×