
Rúmlega tuttugu manns taka þátt í sýningunni og tveir af samúræjunum eru leiknir af konum. Guðmundur segir kyn leikara ekki hafa skipt meginmáli þegar valið var í hlutverk. Eftir á að hyggja hefði kannski verið gaman að láta karlmenn fara með kvenhlutverk en það verði að bíða betri tíma.
Einungis verða fjórar sýningar á verkinu og hefjast þær allar klukkan 20. Hér er um útileiksýningu að ræða þar sem náttúra Elliðaárdalsins nýtur sín til fulls í bakgrunninum og áhorfendur eru leiddir um dalinn til að fylgja sögunni af hetjunum sjö sem taka að sér að vernda fátæka bændur fyrir ofríki grimmra ræningja. Lagt er af stað frá Félagsheimili Orkuveitunnar. Engin forsala verður á miðum, enda frekar ólíkt að uppselt verði á utanhússsýningar, en Guðmundur hvetur fólk til að mæta í fyrra fallinu, þar sem sýningin fer um víðan völl og mikilvægt að allir fylgist að. „Við verðum bara að vona að veðurguðirnir verði okkur hliðhollir og hvetjum fólk til að klæða sig eftir veðri,“ segir leikstjórinn.