Neil Tennant, söngvari sveitarinnar, og Chris Lowe hljómborðsleikari kynntust árið 1981 og varð strax vel til vina vegna sameiginlegs áhuga þeirra á danstónlist. Tónlistarsamstarf þeirra hófst skömmu síðar og tóku þeir upp slagarana It‘s a Sin, West End Girls og Jealousy í litlu hljóðveri í Camden Town. Sveitin sló í gegn árið 1984 og hefur verið starfrækt allar götur síðan. Hún er þekkt fyrir danstónlist sína og ber nýjasta plata sveitarinnar, Electric, kunnuglegan keim af þeim hljómi sem einkenndi sveitina á upphafsárum hennar.
Blaðamaður Pitchfork segir þá Tennant og Lowe sækja innblástur til tónlistarstefna á borð við dubstep á nýju plötunni. Blaðamaðurinn segir enn fremur að félagarnir séu einstaklega lunknir í að „gera popptónlist sem höfðar til samkynhneigðra karlmanna“.
Lögin Love Is A Bourgeois Construct, Fluorescent, Vocal og The Last to Die (sem er upprunalega eftir Bruce Springsteen) þykja þau bestu á plötunni. Lokalag plötunnar er Vocal og fjallar lagið um tónlist og þá tilfinningu sem hún framkallar hjá þeim sem hlýðir á. Í lagatextanum segir meðal annars I like the singer/ He's lonely and strange/ Every track has a vocal/ And that makes a change. Auðvelt er að ímynda sér að Tennant eigi þar við sjálfan sig.
Gagnrýnandi Consequence of Sound segir Electric innihalda pottþétt syntha-popp með þéttum takti og grípandi laglínum sem mun lokka fólk fram á dansgólfið í sumar.