Þetta þrennt er það sem þróast hefur með manninum á hverjum tíma og endurspeglar þannig samfélagið,“ útskýrir Ásdís Jóelsdóttir en bók hennar, Saga hönnunar, er nýkomin út.
Í bókinni fjallar Ásdís um sögu hönnunar frá tímum Egypta til okkar daga. Segja má að hvert einstakt verk sé mótað af því samfélagi, auðlindum, tækni og verkkunnáttu sem til staðar er hverju sinni.

„Bókina er hægt að nota til kennslu en hún er líka frábær gjafabók. Einn lesandi sagði við mig að þetta væri bók sem allir ættu að eiga og hafa uppi á borðum til að glöggva sig á sögunni á nýjan hátt. Ég tek undir það. Ég held líka að mér hafi tekist gera hana nokkuð skemmtilega aflestrar, enda er meginmarkmiðið að segja áhugaverða sögu sem flestir hafa ánægju af að lesa.“

Þá er þetta ekki fyrsta bók Ásdísar innan hönnunargreinarinnar en hún hefur einnig samið bækur um sögu fatagerðar og fatahönnunar á Íslandi, sögu tískunnar og saumtæknibók fyrir fatasaum. Einnig hefur hún þýtt tvær bækur úr sænsku um snið og sniðteikningu fyrir konur og karlmenn.
En er eitthvert tímabil hönnunarsögunnar í uppáhaldi?
„Eiginlega ekki. Þegar maður sökkvir sér ofan í söguna er ákveðinn sjarmi yfir hverju tímabili, stefnu og straumum. Saga hönnunar er mikilvæg til að geta skoðað og skilið þróun samfélagsins í fortíð, nútíð og framtíð. Enda þurfa hönnuðir að hafa góða heildaryfirsýn yfir söguna til að geta verið þeir spámenn fyrir framtíðina sem þeir þurfa að vera.“
