Veiði

Stærsti laxinn úr Elliðaám í sumar

Jakob Bjarnar skrifar
Garðar Örn himinlifandi með laxinn, þann stærsta sem veiðst hefur í ánum í sumar. Fiskinn veiddi hann á gamla veiðistöng sem afi hans átti en hann var einmitt formaður Elliðaárnefndar á sínum tíma.
Garðar Örn himinlifandi með laxinn, þann stærsta sem veiðst hefur í ánum í sumar. Fiskinn veiddi hann á gamla veiðistöng sem afi hans átti en hann var einmitt formaður Elliðaárnefndar á sínum tíma. Fréttablaðið/GVA
Stærsti lax sem veiðst hefur í Elliðaám í sumar hljóp á færið hjá Garðari Erni Úlfarssyni, blaðamanni Fréttablaðsins, í gær – rúmlega sjö og hálft kíló eða fimmtán pund og 96 sentimetrar að lengd.

Garðar var að vonum hoppandi kátur þegar blaðamaður heyrði í honum í gær, en þá var hann nýbúinn að landa ferlíkinu. Og brosti hringinn.

„Viðureignin tók um hálftíma. Hann tók litla flugu sem heitir Friggi. Svartan Frigga hálftommu. Mér var gefin þessi fluga í sumar af höfundinum sem ég hitti á einum veiðistaðnum. Nú prófaði ég hana þar sem heitir Heyvað.“

Veiðistaðurinn er gamalþekktur og er ofarlega í ánni. Garðar segir þetta ákaflega vinsamlegt af Elliðaánum í sinn garð og spyr hvort til séu einhverjar veiðireglur um hvenær eigi að hætta að brosa?

Garðar tók laxinn á gamla Hardy-stöng, 9,5 feta fyrir línu átta. 



„Þetta er stöng sem afi minn átti. Hann var einmitt formaður Elliðaárnefndar. Ég tileinka þennan lax honum,“ segir Garðar og segir þetta sérdeilis fínan dag.

„Nokkrir mjög stórir hafa veiðst í sumar, óvenju margir stórlaxar í þessari alræmdu smálaxaá. Hver svo sem ástæðan er,“ segir Bjarni Júlíusson, formaður Stangveiðifélags Reykjavíkur, sem hefur umsjón með ánni.

Ólafur E. Jóhannsson er formaður árnefndar Elliðaáa og hann segir þetta stærsta lax sem veiðst hefur þar í sumar.

„Það hafa komið stærri fiskar og við erum til að mynda með einn tuttugu punda uppstoppaðan hér uppi á vegg, í veiðihúsinu.“

Ólafi vefst tunga um tönn þegar hann er spurður hver sé stærsti lax sem veiðst hefur í Elliðaánum enda hafa þar verið stundaðar veiðar í á annað hundrað ár. Og því erfitt að segja.

„Eftir 1992 hefur ekki komið stærri fiskur en 20 pundari. Þessi lax er alls ekki sá stærsti en glæsilegur engu að síður, ég er ekki að draga úr því.“

Ólafur vigtaði laxinn eftir kúnstarinnar reglum og kom þá á daginn að hann var 7,56 kíló eða 15 pund rúmlega og 96 sentimetrar að lengd.

„Hann er leginn og farinn að þynnast. Nýgenginn hefur hann verið þyngri.“ 






×